Henry vildi ekki taka við kvennalandsliðinu

Thierry Henry starfar í dag sem sparkspekingur hjá Sky Sports.
Thierry Henry starfar í dag sem sparkspekingur hjá Sky Sports. AFP

Fyrrverandi knattspyrnumanninum Thierry Henry stóð til boða að taka við franska kvennalandsliðinu á dögunum.

Það er vefmiðillinn Keep Up sem greinir frá þessu en Frakkar leita nú að nýjum þjálfara eftir að Corinne Diacre var rekinn úr starfi í síðustu viku.

Henry, sem gerði garðinn frægan með Arsenal og Barcelona, er 45 ára gamall en hann starfar nú sem sparkspekingur hjá Sky Sports á Englandi.

Heimsmeistaramótið í Ástralíu og Nýja-Sjálandi hefst í sumar og eru Frakkar nú í leit að nýjum þjálfara en áður höfðu lykilmenn liðsins gefið það út að þeir myndu ekki spila með Frökkum á HM ef Diacre yrði með liðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert