Daði Freyr heldur tónleika á vegum Xbox

Skjáskot af myndbandi sem birt var á YouTube af Xbox.
Skjáskot af myndbandi sem birt var á YouTube af Xbox. Skjáskot/YouTube/Xbox

Íslenski tónlistarmaðurinn Daði Freyr hélt stutta tónleika fyrir útgáfu tölvuleiksins Psychonauts 2 sem birt var á youtuberás Xbox.

Framandi og einstakir tónleikar

Í umræddu myndbandi býður Daði Freyr áhorfendum inn í heila sinn og flytur þar ýmis lög frá honum sjálfum fyrir framan tölvugerða og framandi bakgrunna sem gefa myndbandinu einstakan og skemmtilegan brag en fyrst með fréttina var Nörd norðursins.

„Velkomin í huga minn, þetta er staðurinn þar sem ég hugsa hvað mest. Ég er enn að endurnýja svo vinsamlegast ekki snerta neitt en látið eins og þið séuð heima hjá ykkur. Komið ykkur þægilega fyrir, þetta er öruggt umhverfi hugans,“ segir Daði í upphafi tónleikanna og spilar í framhaldi af því lag sem heitir Whispering rock psychic summer camp.

Hér að neðan má sjá glæsilega frammistöðu Daða Freys í myndbandinu frá Xbox. 

Jákvæð viðbrögð

Undir myndbandinu má lesa ummæli fólks þar sem það hrósar Daða og tónlistinni sem hann gerir en Xbox hefur svarað nokkrum þeirra og segir Daða meðal annars hafa neglt verkefnið.

Áhorfendahópur Xbox-rásarinnar á YouTube er gríðarstór en rásin hefur um 4,73 milljónir fylgjenda.

Kafað djúpt inn í heilann

Tölvuleikurinn Psychonauts 2 er ævintýraleikur á vegum Xbox þar sem þú færð að notast við hæfileika Raza til þess að kafa ofan í heila annarra. Í heilum annarra fær leikmaður tækifæri til þess að kanna einstakt umhverfi og slást við innri djöfla sem fylgja hverjum heila, grafa upp minningar og leysa úr tilfinningalegum bagga þeirra sem eiga heilann hverju sinni.

Tölvuleikurinn kom út 24. ágúst og hægt er nálgast hann bæði með Xbox Gamepass og á Steam.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert