Besta Tindastólslið sem ég hef spilað með

Pétur Rúnar Birgisson í leik gegn Njarðvík í undanúrslitunum.
Pétur Rúnar Birgisson í leik gegn Njarðvík í undanúrslitunum. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Pétur Rúnar Birgisson, leikmaður Tindastóls í körfubolta, var á kafi í lærdómi þegar blaðamaður Morgunblaðsins heyrði í honum í gær. Tindastóll leikur þriðja leik sinn við Val í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld.

Staðan í einvíginu er 1:1. Valur vann fyrsta leikinn á sínum heimavelli en Tindastóll svaraði með sigri í Skagafirðinum á mánudagskvöld. Pétur segist ánægður með varnarleik liðsins í báðum leikjunum hingað til, en lykillinn að því að vinna Val liggi í sókninni.

„Ég tel lykilinn að því liggja svolítið sóknarlega, að finna út úr því hvernig við eigum að brjóta þá. Ég held að flestir séu sammála um það að þessi tvö lið hafa spilað besta varnarleikinn í úrslitakeppninni svo ég held að þetta liggi í því að finna opin skot og setja þau niður.“

Stuðningurinn sem liðið hefur fengið undanfarið hefur hreinlega verið ótrúlegur. Pétur segir alla standa þétt við bakið á sér og stemningin í sveitarfélaginu sé gífurlega mikil.

„Stemningin hefur stigmagnast núna í ansi langan tíma. Hún byrjaði eftir landsleikjahléið í leik á móti Keflavík. Við unnum náttúrlega Keflavík í 8-liða úrslitunum þar sem voru þvílík læti. Það standa allir við bakið á okkur og við erum mjög þakklátir fyrir það.“

Sjáum núna hvað var leiðinlegt í Covid

Og það er ekki bara í Skagafirði sem stemningin er mikil. Uppselt var á þriðja leik liðanna um einum og hálfum sólarhring fyrir leik en ofan á það horfa gífurlega margir í sjónvarpi.

„Þetta er náttúrlega bara geggjað. Þetta er líka bara gaman fyrir íþróttina í heild. Við sjáum það núna hvað það var leiðinlegt í Covid! Það eru allir orðnir þyrstir í það að fá smá spennu í líf sitt og körfubolti er íþrótt sem býður upp á ansi mikið af henni.“

Viðtalið í heild sinni má lesa á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert