Púlsavirkni í gígnum í fyrsta sinn síðan í apríl

Böðvar Sveinsson segir púlsvirknina hafa hafist síðdegis í dag.
Böðvar Sveinsson segir púlsvirknina hafa hafist síðdegis í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Púlsavirkni er hafin á ný í gíg eldgossins í Geldingadölum. Þessi breyting átti sér stað rétt fyrir klukkan fjögur síðdegis í dag að sögn Böðvars Sveinssonar veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Þetta er í fyrsta sinn síðan í apríl sem slík virkni mælist á svæðinu en Eldfjalla og náttúruvárhópur Suðurlands vakti athygli á málinu á Facebook-síðu sinni:

Lítið hægt að rýna í stöðuna að svo stöddu

Böðvar telur þessa breytingu ekki hafa mikla þýðingu að svo stöddu: „Við vitum það ekki nákvæmlega, en þessir strókar núna eru ekki svona háir og öflugir stórkar og voru hér áður. Ég veit hins vegar ekki nákvæmlega hvort það sé mikill hávaði með þessu eða ekki en þetta er allavega öðruvísi en var.“

Mælingar hafa verið fremur stöðugar frá því að virknin breyttist þegar klukkan var að ganga fjögur.

Lengi lifir í glæðum eldgossins.
Lengi lifir í glæðum eldgossins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Virknin stöðug í minni gosopnum

„Þetta virðist vera nokkuð stöðugt eins og er, það kom reyndar smá breyting aftur milli sjö og átta, þá kom aðeins minni kraftur í þessa púlsa,“ segir Böðvar sem bendir á að virknin hafi lítið breyst í öðrum gosopnum:

„Svo er þessi hraunpollur þarna út í þar sem hraunið náði að koma sér upp aftur í gegnum nýja hraunið og það er alveg stöðugt þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert