Dæmdur til 20 mánaða fangelsisvistar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á 65. aldursári, Heiðar Þór Guðmundsson, til 20 mánaða fangelsisvistar vegna fíkniefnalaga-, umferðarlaga- og vopnalagabrota. Þá var honum gert að sæta upptöku fíkniefna og lyfja auk þess sem ævilöng svipting ökuréttar var áréttuð.

Heiðar var ákærður af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu í fjórum liðum fyrir vörslu fíkniefna og fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna án ökuréttinda. Áður hafði hann verið ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot og brot gegn lyfjalögum, lögum um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum sem og vopnalögum. Meðferð málanna var sameinuð.

Auk fangelsisvistarinnar var Heiðari gert að sæta upptöku á tæpum 750 grömmum af amfetamíni, rúmum 20 grömmum af kókaíni, rúmum 88 grömmum af marijúana, sterum og nokkru af lyfseðilsskyldum lyfjum. Þá voru gerðar upptækar tvær grammavogir, bunki af smelluláspokum, farsímar og minnisbækur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert