Stimplagerðin hefur verið auglýst til sölu en um er að ræða rótgróið fyrirtæki sem hefur starfað óslitið frá árinu 1955, eða í um 66 ár. Fyrirtækið, sem er elsta stimplagerð landsins, verður því, ef það er sett í samhengi við mannsævi, orðið löggilt gamalmenni á næsta ári. Rekstur fyrirtækisins er til sölu ásamt 211 fermetra húsnæði þess, sem er í Síðumúla 21.

Hjónin Óðinn Geirsson og Aðalheiður Maack keyptu Stimplagerðina árið 1976, af stofnandanum, Bergi Thorberg prentara, og hafa því rekið fyrirtækið í um 45 ár. Stimplagerðin var lengst af til húsa á Vatnsstígnum í Reykjavík í kringum síðustu aldamót fluttust starfsstöðvarnar í Síðumúlann. Óðinn, sem er framkvæmdastjóri Stimplagerðarinnar, segir fyrirtækið vera komið á sölu þar sem þau hjónin hyggist setjast í helgan stein og njóta efri áranna.

„Við hjónin kaupum fyrirtækið af Bergi Thorberg árið 1976 og höfum rekið það allar götur síðan. Við erum að nálgast áttræðisaldurinn og okkur finnst kominn tími til að setja punktinn við þetta og setjast í helgan stein. Við höfum þá til dæmis meiri tíma til að fara í golf," segir Óðinn og hlær.

Nokkrir mögulegir kaupendur

Óðinn segir að sú nærri hálfa öld sem þau hjónin ráku Stimplagerðina hafi verið yndislegur tími. „Þetta er traust fyrirtæki sem hefur verið lykilfyrirtæki í þessum bransa og við höfum náð að þróa það áfram í gegnum tíðina. Við höfum verið leiðandi fyrirtæki í stimplasölu alla okkar tíð. Þetta hefur verið skemmtilegur tími og okkur er efst í huga þakklæti til viðskiptavina og samstarfsaðila okkar."

Þegar litið sé um öxl standi helst upp úr þegar Stimplagerðin fór einnig að bjóða upp á hverskonar skilti úr innbrenndu áli og ígrafin skilti úr plasti og messing. „Það var mikil bylting þegar við fórum að framleiða skiltin. Það er bandarísk tækni í þessum skiltum sem gerir það að verkum að textinn lokar sig undir yfirborðið og skiltin eru þar af leiðandi mjög endingargóð. Textinn fer því ekki af skiltunum með tíð og tíma, og skiltin þola hvaða veður sem er. Við erum með einkaleyfi á þessari tækni hér á landi."

Spurður um hvort mögulegir kaupendur hafi þegar haft samband og lýst yfir áhuga á að leggja fram tilboð, segir Óðinn að svo sé. „Það eru einhverjir aðilar að spekúlera í þessu. Þetta fyrirtæki er svolítið sérhæft og almennt séð þekkir fólk þennan bransa nokkuð takmarkað. Það eru samt mögulegir kaupendur í farvatninu en það er ekkert frágengið með það hvert fyrirtækið verður selt," segir Óðinn sem kveðst bjartsýnn á að það finnist góðir kaupendur til að taka við keflinu af þeim hjónum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fjallað um umtalsverð umsvif tölvuleikjamóts í Laugardalshöll
  • Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, segir frá Heimstorgi Íslandsstofu, nýrri upplýsinga- og samskiptagátt fyrirtækja sem leita viðskiptatækifæra í þróunarlöndum og víðar.
  • Aðalmeðferð fór fram í vikunni í máli Arion banka gegn Magnúsi Garðarssyni en bankinn vill gera fjárnám í fasteign hans.
  • Hitað upp fyrir aðalfund Íslandspósts sem haldinn verður í lok vikunnar.
  • Íslensk-bandarískur skyrframleiðandi stefnir á mikla uppbyggingu vestanhafs.
  • Hugmynd um framleiðslu kola með jarðorku úr taði og öðrum úrgangi er ein þeirra sem valin var til þátttöku í Startup Orkídeu.
  • Guðrún Aðalsteinsdóttir, nýr forstöðumaður innkaupa og vörustýringarsviðs Krónunnar, er tekin tali.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem fjallar um dómaramistök.
  • Óðinn skrifar um meingallað heilbrigðiskerfi.