Samningurinn hvati fyrir heilbrigðisstarfsfólk

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.

Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans kveðst ánægður með að samningur sem kveður á um að framleiðslutengja fjármögnun Landspítalans sé kominn í höfn. Telur hann að slíkt greiðslufyrirkomulag muni meðal annars skapa meiri hvata innan heilbrigðiskerfisins og auka þjónustu.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, María Heimisdóttir forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, skrifuðu í dag auk Páls undir samning um að fjármögnun á Landspítalanum verði að stórum hluta þjónustutengd. Fyrirkomulagið mun taka gildi 1. janúar næstkomandi.

Horfið frá föstum fjárlögum

„Framleiðslutengd fjármögnun er nokkuð sem við höfum verið að vinna að markvisst í um það bil 15 ár þannig það er tími til kominn að skrifa undir samning um raunverulega innleiðingu framleiðslu tengdrar fjármögnunar. Það hafa áður verið stigin skref í þessa átt en núna er þetta samningur sem lýtur miklu stærri hluta fjármögnunar,“ segir Páll í samtali við mbl.is.

„Þarna er verið að hverfa frá því að fjármagna alla þjónustuna með föstum fjárlögum og meirihluti þjónustunnar er tengdur framleiðslu eða þjónustuverkum þannig að ef Landspítali veitir meiri þjónustu, gerir fleiri læknisverk, fær hann meira fé.

Þetta er þá hvati til að veita meiri þjónustu en það eru einnig skilyrði um gæði eða gæðaviðmið þjónustunnar sem veita einnig aðhald og eiga að tryggja gæði þjónustunnar.“

Bráðamóttaka og geðheilbrigðisþjónusta verða undanþegnar.
Bráðamóttaka og geðheilbrigðisþjónusta verða undanþegnar.

Samningurinn mun ekki ná yfir bráðamóttökuna

Að sögn Páls er töluverð vinna sem mun fara í að innleiða þetta greiðslukerfi þar sem að mæla þarf með réttum hætti framleiðsluna og kostnaðargreina hvert verk. Enn eru þó ýmsir útgjaldaliðir innan spítalans sem greiðslukerfið mun ekki ná til og erfiðara er að greiðslutengja, á borð við kennslu, vísindi og rekstur ýmsa innviðakerfa.

Auk þess verða bráðamóttaka og geðheilbrigðisþjónusta undanþegnar framleiðslutengingunni, ásamt nokkrum öðrum verkefnum.

Aðspurður segir Páll að óljósari tengsl milli greiningar og kostnaðar í geðheilbrigðisþjónustunni geri það meðal annars að verkum að samningurinn nái ekki yfir það svið.

Segir hann jafnframt bráðamóttökuna búa yfir fjölbreyttu þjónustuhlutverki og sé það áfram í skoðun á næstu árum hvernig hægt verði að framleiðslutengja þá fjármögnun.

„Markmiðið til lengri tíma er að öll okkar þjónusta verði meira og minna undir þessu þjónustutengda greiðslukerfi. Það er mislangt komið eftir eðli verkefna. Það þarf frekari vinnu til að útfæra það með skynsömum hætti.“

Leysir ekki öll vandamálin

Að sögn Páls er framleiðslutengingin ekki svör við öllum vandamálum Landspítalans, sem dæmi leysi greiðslukerfið ekki mannekluna. Telur hann þó að hvatinn sem fylgi greiðslufyrirkomulaginu muni stuðla að bættara starfsumhverfi og með þeim hætti geti samningurinn haft jákvæð áhrif á mannskapinn.

Segir hann nú næsta verkefni felast í því að fjármagna heilbrigðisþjónustuna fyrir sífellt eldri þjóð og telur hann það stærsta viðfangsefni komandi ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert