Kemur vonandi að því að maður vinni mót

Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir. Ljósmynd/Tristan Jones/LET

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr Keili, er þegar skráð til þátttöku á 15 mótum á LET-mótaröðinni, sterkustu mótaröð Evrópu, og reiknar með því að taka einnig þátt á mótum hér á Íslandi og LET-Access mótaröðinni, þeirri næst sterkustu í Evrópu, þar sem hún er einnig með keppnisrétt.

Tímabilið er þegar hafið hjá Guðrúnu Brá og hefur gengið á fyrstu tveimur mótum þess verið misjafnt.

„Mér gekk illa í fyrsta mótinu í Kenýu þar sem ég náði ekki niðurskurðinum. Ég fann að ég var ekki alveg komin í nógu gott spila/keppnisform þar sem ég var að tapa höggum að óþörfu.

Mót tvö á Spáni var betra þar sem ég náði að spila mjög vel fyrsta daginn og treysta hlutunum sem ég hef verið að vinna í, en náði ekki að halda eins góðum dampi næstu tvo dagana. Þar náði ég niðurskurði og endaði í 33. sæti,“ sagði hún í viðtali sem birtist í fréttabréfi Keilis.

Fleiri tækifæri þegar vel gengur

Um tímabilið í ár sagði Guðrún Brá:

Tímabilið mitt fer frekar rólega af stað miðað við seinustu ár en ég byrja alveg á fullu í maí. Þrátt fyrir að ég sé komin með um það bil heildarmyndina af árinu mínu þá getur þetta alltaf breyst mjög fljótt.

Þannig að það er mikilvægt að vera sveiganlegur. En eins og þetta lítur út núna er ég með um 15 mót á LET og svo aukalega myndi ég bæta inn mótum hérna heima og á LET-Access mótaröðinni.

En svo þegar gengur vel opnast alltaf fleiri tækifæri. Markmiðin mín eru að koma mér í góðar stöður í mótunum sem ég keppi í og eiga séns á sigri. Svo vonandi kemur einhverntíman að því að maður vinnur mót.“

Jafnast ekkert á við íslenskt golfsumar

Hún stefnir ótrauð að því keppa á Íslandi í sumar.

Já klárlega. Ég reyni að keppa eins mikið og ég get á Íslandi þrátt fyrir að mót úti gangi ávallt fyrir. Það jafnast ekkert á við íslenskt golfsumar!“ sagði Guðrún Brá að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert