Enginn vill semja við fjórfaldan heimsmeistara

Sebastian Vettel kveður Ferrari við vertíðarlok 2020.
Sebastian Vettel kveður Ferrari við vertíðarlok 2020. AFP

Það virðist enginn ætla semja við ökuþórinn Sebastian Vettel fyrir næsta tímabil í formúlu-1 en Þjóðverjinn verður samningslaus hjá Ferrari eftir yfirstandandi tímabil.

Vettel gekk til liðs við Ferr­ari fyr­ir keppn­istíðina 2015 eft­ir fimm ár í keppni með Red Bull, en með því vann hann heims­meist­ara­titil öku­manna fjór­um sinn­um í röð, 2010 til 2013. Hon­um hefur hins veg­ar ekki tekist að vinna titil­inn eft­ir­sótta með Ferr­ari en hann lauk keppni í fimmta sæti á síðasta tíma­bili eft­ir að hafa verið í bar­áttu um heims­meist­ara­titil­inn ár tvö þar á und­an.

Stjóri Red Bull staðfesti í dag að það komi ekki til greina að fá Vettel aftur til liðsins og þá ákvað Renault frekar að semja við Spánverjann Fern­ando Alon­so. Heimsmeistarar Mercedes eiga eftir að staðfesta hverjir keyra fyrir liðið á næstu leiktíð en allar líkur eru á því að Lewis Hamilton framlengi samning sinn við liðið og að Valtteri Bottas verði einnig áfram.

Sú staða virðist því vera komin upp að ekkert lið muni semja við fjórfalda heimsmeistarann sem segist sjálfur ekki vera búinn að taka ákvörðun um framhaldið. „Halda áfram, taka mér frí eða setjast í helgan stein. Það kemur allt til greina eins og er, ég ætla sjá til hvað býðst,“ sagði Vettel við fjölmiðla í vikunni en hann keppir nú í Austurríki á síðasta tímabili sínu fyrir Ferrari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert