Hola eftir grísamark

Rúnar Alex og félagar fyrir leikinn í gærkvöld.
Rúnar Alex og félagar fyrir leikinn í gærkvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

Rúnar Alex Rúnarsson, markvörður íslenska landsliðsins í fótbolta, var svekktur eftir 0:3-tap fyrir Bosníu í Zenica í gærkvöldi. „Ég er svekktur. Þetta var ekki góð byrjun hjá okkur. Við gerum meiri kröfur á þetta,“ sagði Rúnar við mbl.is.

Leikurinn var sá fyrsti í undankeppni EM í Þýskalandi og lenti Ísland snemma í vandræðum í Zenica í gærkvöld.

„Á fyrstu tíu mínútunum voru komin færi og ég þurfti að hjálpa liðinu. Þeir skora svo grísamark og þá er þetta hola sem við erum komnir ofan í, sem við náum ekki að grafa okkur upp úr.“

Rúnar sagði íslenska liðið hafa leitað of mikið í langa bolta, í staðinn fyrir að spila boltanum betur innan síns liðs.

„Við leituðum of mikið í löngu boltana. Við hefðum mátt spila aðeins meira og koma okkar færustu fótboltamönnum meira inn í leikinn. Það er erfitt fyrir góða fótboltamenn að bara að verjast. Við áttum að gera betur“

Markvörðurinn viðurkennir að stemningin hafi verið súr í klefanum í leikslok.

„Hún var súr. Við vitum að við getum gert betur og við viljum gera það. Það er súrt að geta ekki byrjað undankeppni á annan hátt. Við komum hingað með það markmið að ná í stig,“ sagði Rúnar Alex.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert