Baskarnir mæta Barcelona í úrslitaleiknum

Leikmenn Athletic Bilbao fagna í leikslok í kvöld.
Leikmenn Athletic Bilbao fagna í leikslok í kvöld. AFP

Athletic Bilbao er komið í úrslitaleik spænsku bikarkeppninnar í knattspyrnu eftir sigur á Levante í framlengdum leik á útivelli í kvöld, 2:1, en liðin höfðu gert 1:1-jafntefli í fyrri leik sínum í Bilbao.

Þar með verða það Athletic Bilbao og Barcelona sem mætast í úrslitaleik keppninnar.

Roger Martí kom Levante yfir á 17. mínútu en Raúl García jafnaði úr vítaspyrnu á 30. mínútu og staðan var 1:1 eftir venjulegan leiktíma.

Þegar átta mínútur voru eftir af framlengingunni skoraði Álex Berenguer sigurmark Athletic og þar með varð draumur Levante um að leika til úrslita í fyrsta skipti í sögunni að engu.

Með þessum sigri er Athletic Bilbao komið í úrslitaleik keppninnar og freistar þess að vinna hana í fyrsta sinn í 37 ár. Þrátt fyrir það er félagið það næstsigursælasta í sögu keppninnar, á eftir Barcelona, en Athletic vann hana í 23 skipti frá 1903 til 1984. Eftir það hefur liðið tapað fjórum bikarúrslitaleikjum, tveimur þeim síðustu gegn Barcelona árin 2012 og 2014.

Athletic Bilbao er einstakt félag í fótboltanum á Spáni og þótt víðar væri leitað. Liðið er eingöngu skipað innfæddum leikmönnum, frá Baskahéruðunum á Norður-Spáni, og félagið er það eina fyrir utan Barcelona og Real Madrid sem hefur aldrei fallið úr spænsku 1. deildinni. Félagið hefur átta sinnum orðið spænskur meistari, síðast 1984 þegar það vann tvöfalt, bæði deild og bikar.

Ástæða þess að félagið ber enskt nafn, Athletic, er sú að félagið var stofnað af breskum hafnarverkamönnum og námumönnum sem störfuðu í borginni undir lok nítjándu aldar og komu flestir frá Southampton, Portsmouth og Sunderland.

Úrslitaleikur bikarkeppninnar fer fram í Sevilla um páskana, laugardaginn 3. apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert