fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Fleiri farþegar í hryllingsfluginu frá Krít stíga fram – Hóstandi útskriftarnemendur fóru fárveikir um borð – „Ég fékk bara innilokunarkennd og langaði að öskra“

Heimir Hannesson
Sunnudaginn 25. júlí 2021 22:31

Mynd/samsett DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frá því að DV birti fyrst frétt um að minnst 30 úr 80 í útskriftarferð til Krítar hefðu greinst með Covid-19 eftir komu til landsins hafa fjölmargir farþegar stigið fram og lýst upplifun sinni af fluginu. Í frétt okkar í gær um málið lýsti einn útskriftarnemandinn því fyrir DV að mikið fjör hefði verið í ferðinni. „Þetta var alveg geðveikt,“ sagði nemandinn og sagðist ekki vera hissa að smit hefði komið upp í hópnum.

Þó nokkrir farþegar í fluginu frá Krít hafa síðan stigið fram og haft samband við DV. Lýsingar þeirra af fluginu eru sláandi. Ber þeim öllum saman um að margir úr útskriftarhópi Flensborgar hafi verið sjáanlega veikir í fluginu, að þau hafi bersýnilega virt leiðbeiningar flugliða um borð að vettugi og hafi ráfað óþægilega mikið um vélina.

Einn lýsti því í samtali við DV að krakkarnir hefðu verið að kasta hlutum hvert í annað og hlaupið um vélina. Hann tók þó fram að ekki hafi verið um ölvun að ræða eða slíkt, en að virðingarleysi útskriftarnemanna við stöðuna í þjóðfélaginu hefði verið algjör.

Í samtali við DV nú segja tvær konur sem báðar voru farþegar í fluginu, þó hvor í sínum hópnum, svipaða sögu.

„Það sást á fólki í vélinni að það væri fárveikt. Þetta sama fólk var ekki með grímu og hljóp um alla vél allt sex tíma flugið,“ segir ein. „Maður sá það langar leiðir á krökkunum að þau væru veik. Stelpa sem sat nálægt okkur var að snýta sér og hóstaði allt flugið.“

Viðmælandinn lýsir fluginu sem hryllingi. „Ég fékk bara svakalega innilokunarkennd og mann langaði bara að öskra. Maður tók eftir þessu strax á flugvellinum úti að þetta voru ekki bara einhver smá veikindi eða þynnka í krökkunum. Þau voru bara öll veik.“

Annar viðmælandi DV tekur undir þetta. Lýsti hún því fyrir blaðamanni að hún hefði heyrt að hópurinn hefði verið nokkuð seinn á flugvöllinn. „Þá komu nokkrar stelpur þarna inn og kaupa sér samloku og bjór, og ég heyri bara að þær byrja að hósta. Ég hugsaði strax að þarna væri eitthvað í gangi,“ segir konan. Hún segir alveg ljóst að fólkið hafi verið veikt áður en á flugvöllinn var komið. „Manni finnst það svo vont að þau hafi komið svona í vélina. Miðað við hóstann í mörgum að þá fór ekkert á milli mála að fólkið var bara fárveikt.“

Lugu nemarnir til í farþegaskráningu?

Báðir viðmælendur höfðu þá orð á því að áður en heim er haldið úr utanlandsferð þarf að skrá sig inn í landið á Covid.is. Þar þarf að staðfesta að viðkomandi sé einkennalaus og sé að svara eftir bestu vitund. Aðspurð hvort þær telji fólkið hafi logið segir konan sem var á ferð með fjölskyldu sinni sig telja allar líkur á því. „Maður svo sem skilur það alveg, fólk vill bara komast heim til sín og kannski hefði maður gert það sama, logið aðeins til um líðan sína á þessu formi. En þá hefði maður bara setið einhvers staðar með grímu og haft sig hæga,“ segir konan.

Það var alls ekki raunin, eins og áður hefur komið fram. „Þau voru alltaf að taka af sér grímurnar, standandi upp, flakkandi á klósettið, spjallandi saman grímulaus, þrátt fyrir að stöðugt væri verið að minna á grímurnar. Svo sá maður að áhöfnin bara gafst upp á þessu og hætti að skipta sér af þeim,“ segir hún.

Önnur konan segir jafnframt að henni hafi þótt undarlegt að fólkinu hafi verið dreift um alla vél. „Á einum stað voru krakkar úr útskriftarhópnum settir við hlið fólks sem var með þriggja mánaða barn með sér. Aftar voru krakkarnir komnir við hlið eldri hjóna, og svo vorum við umkringd þeim, og flest voru þau veik og hóstandi.“

Óánægja með misvísandi skilaboð og ófullnægjandi upplýsingar

„Þetta var bara skelfilegt flug, og ég sem fjölskyldumanneskja, við fórum rosalega varlega úti, virtum allar reglur, forðuðumst að vera innan um fólk. Svo gerist þetta á heimleiðinni og nú sitjum við föst hérna heima,“ segir hún jafnframt.

Fram kom í fréttum í dag að yfirvöld hefðu skikkað fólk í vélinni í sóttkví. Annar viðmælandi DV bendir á að þetta sé ekki rétt. Hún hafi í tvo daga reynt að hafa samband við heilbrigðisyfirvöld í gegnum Covid.is og í Covid síma Læknavaktarinnar, en enn hafi hún engin svör fengið um hvort hún eigi að vera í sóttkví. Konan fór í skimun á flugvellinum og liggur neikvæð niðurstaða fyrir úr þeirri skimun. Engu að síður valda tvíræð skilaboð stjórnvalda henni áhyggjum.

„Þrátt fyrir fréttir um að allir séu komnir í sóttkví er ég ekkert komin í neina sóttkví, að minnsta kosti ekki formlega. Ég er auðvitað heima í sjálfskipaðri sóttkví,“ segir konan, „en ég er í vinnu og með réttu ætti ég að mæta í hana á morgun. Ég þarf auðvitað að vita hvort ég eigi að vera heima eða ekki,“ segir hún jafnframt. Hún tekur þó fram að hún ætli sér ekki að taka neina sénsa og verði heima þar til hún fær einhver svör, í sjálfskipaðri sóttkví. Hún segir ferðafélaga sína þegar hafa fengið meldingar um að fara í sóttkví, en eftir situr hún.

Þá hafa skilaboðin frá ferðaskrifstofunum Úrval Útsýn og Heimsferðum jafnframt verið misvísandi. „Úrval Útsýn sendir í hádeginu í dag frá sér boð um að allir eigi að fara í skimun þar sem smit hafi komið upp í vélinni og ítrekað var að allir eigi að fara í sýnatöku,“ segir hún. „En Heimsferðir sendu í gærkvöldi frá sér að það hefði komið upp smit og að allir farþegar eigi að fara í sóttkví.“ Þannig að eingöngu Heimsferðir en ekki  Úrval Útskýn gáfu út fyrirmæli um að farþegarnir ættu að fara í sóttkví, en Úrval Útsýn gaf aftur á móti út að farþegar ættu að fara í skimun.

Aðspurð hvort margt hafi verið í vélinni segir konan svo hafa verið. „Ég veit ekki hvað þetta er stór vél, en hún var næstum því full.“ Það er því ljóst að fjölmargir, jafnvel hátt í hundrað manns, eru nú komnir í sóttkví vegna smitsins meðal útskriftarhópsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu