Efnahagsbati leiðir til hækkandi olíuverðs

Hráolíuverð hefur hækkað síðustu mánuði.
Hráolíuverð hefur hækkað síðustu mánuði. AFP

Brent-hráolíuverð hefur hækkað mikið á síðustu mánuðum þar sem aukin bjartsýni ríkir á mörkuðum, enda er vaxandi eftirspurn eftir flugsamgöngum og hagkerfi heims að opna á ný eftir faraldurinn.

„Það hefur náttúrlega verið aukin eftirspurn tengd efnahagsbata í hinum vestræna heimi og aukin umsvif í flugi og öðru,“ segir Yngvi Harðarson, framkvæmdarstjóri Analytica.

Hækkandi hráolíuverð hefur mikil áhrif hér á Íslandi þar sem fjölmargar atvinnugreinar reiða sig á hráolíu, og getur hækkun olíuverðs haft neikvæð áhrif á útgjöld til dæmis flug- og sjávarútvegsfyrirtækja.

„Þetta er tiltölulega óhagstætt fyrir þann hluta atvinnulífsins sem reiðir sig á olíu, bæði flug, útgerðir og ferðamannabransinn. En svo kann þetta að hafa óbein jákvæð áhrif á orkugeiran okkar fyrir raforkuframleiðendur ef horft er aðeins lengra fram á veginn. Þá verður íslensk raforkuframleiðsla hlutfallslega ódýr og verður þá samkeppnisvænni en hún nú þegar er,“ segir Yngvi.

Verðið ekki verið hærra síðan 2019

Hráolíuverðið stendur í tæplega 72 dölum og hefur ekki verið jafnhátt síðan í maí 2019. Eftir algjört hrun í kjölfar kórónuveirufaraldursins hefur olíuverð hækkað í takt við góðar bólusetningafréttir og örvandi efnahagsaðgerðir frá stærstu þjóðum heims. Einnig má benda á það að samdráttur í framleiðslu olíufyrirtækjanna í faraldrinum gæti haft áhrif á verðið.

„Það hefur verið samdráttur í framleiðslu og var það samhliða minni eftirspurn á tímum þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst. Það er auðvitað ekki búið svo sem en það var náttúrulega verulegur samdráttur á sínum tíma,“ segir Yngvi.

Borgað fyrir að taka við olíu

Hráolíuverð fór í fyrsta skipti í sögunni á seinasta ári fyrir neðan núll dali og náði botni í -37,63 dölum þar sem fjárfestar gerðu allt til þess að komast hjá því að fá olíuna afhenda þar sem þá skorti pláss fyrir vörslu hennar.

„Mönnum var borgað fyrir að taka við olíu til afhendingar vegna þess að menn skorti geymslupláss; það hefur aldrei gerst áður.“

Flest allir hrávörumarkaðir hafa hækkað og bendir Yngvi á það að vísitalan fyrir hrávörumarkaðinn hefur tvöfaldast síðan í fyrra, og álverð hefur hækkað mikið í takt við markaðinn. 

„Það er engin spurning að fyrir okkur er hækkun álverðs góðar fréttir fyrir bæði álframleiðendur og raforkuframleiðendur,“ segir Yngvi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK