Aukinn þroski og sterkari sjálfsmynd

Óskar Hrafn Þorvaldsson getur verið ánægður þegar hann virðir fyrir …
Óskar Hrafn Þorvaldsson getur verið ánægður þegar hann virðir fyrir sér stöðutöfluna. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Breiðablik er í efsta sæti Pepsí Max deildar karla þegar aðeins tvær umferðir eru eftir. Liðið er með 44 stig eftir tuttugu leiki. Óskar Hrafn Þorvaldsson er á sínu öðru tímabili sem þjálfari liðsins. Í fyrra hafnaði liðið í 4. sæti með 31 stig eftir átján umferðir. Liðið vann þá níu leiki af átján en hætta þurfti keppni á þeim tímapunkti vegna heimsfaraldursins. 

Mbl.is spurði Óskar Hrafn hver sé helsti munurinn á Breiðabliksliðinu í ár miðað við í fyrra.

„Menn hafa þroskast og eru orðnir sterkari andlega. Hópurinn er orðinn þéttari og leikmenn eru miklir vinir. Í hópnum sjálfum er því mikill styrkur. Mér finnst menn vinna vel í mótbyr. Við höfum heldur ekki þurft að skipta jafn grimmt um lið á milli leikja og höfum fundið betri takt. Stöðugleikinn er meiri. Skilningur leikmanna á því sem við viljum ná fram hefur aukist sem og skilningur minn á styrkleikum og veikleikum leikmanna. Ég hef gert hundrað mistök en einnig nokkra góða hluti. Ég hef líka lært og þroskast með liðinu. Allir í teyminu hafa vaxið.

Evrópuleikirnir skiptu gríðarlegu máli í þessu samhengi. Þar færðu sex erfiða leiki sem spyrja öðruvísi spurninga en leikirnir hérna heima. Þegar þú vinnur að þú stendur jafnfætis þeim liðum, með þín eigin verkfæri og með því að vera þú sjálfur, þá gefur það auðvitað mikinn styrk. Gefur mikla trú og það finnst mér hafa skilað sér inn í hópinn. Bjargföst trú á því sem þeir eru að gera. Við þetta má bæta að liðið er í góðu formi vegna þess að menn leggja mikið á sig. Þeir hlaupa óhugnalega mikið. Það fyrst og síðast skilar árangri.“

Óskar Hrafn Þorvaldsson og aðstoðarmaður hans Halldór Árnason leggja á …
Óskar Hrafn Þorvaldsson og aðstoðarmaður hans Halldór Árnason leggja á ráðin. Óskar segir alla í teyminu í kringum liðið hafa vaxið á milli tímabila. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Þar sem Óskar kemur inn á frammistöðu Blika í Evrópukeppninni að þá er athyglisvert hversu jákvæð áhrif sú þátttaka hafði á lið Breiðabliks í Íslandsmótinu. Í gegnum tíðina hefur aukið leikjaálag oft haft slæm áhrif á árangur íslenskra liða í deildinni meðan á þeirri törn stendur. Því var öfugt farið með Breiðablik í sumar.

„Já Evrópukeppnin virkaði bara eins og bensín eða nítró innspýting á liðið. Frammistaða í þeim leikjum gaf liðinu svo mikið. Við renndum aðeins blint í sjóinn á móti Racing og þá voru menn aðeins óöruggir í útileiknum en sterkir heima. Svo komu tveir mjög öflugir leikir á móti Austria Vín og að mörgu leyti mjög öflugir leikir á móti Aberdeen. Það er rosalega gott fyrir leikmenn að sjá að þeir geti verið þeir sjálfir á móti öflugum erlendum atvinnumönnum og átt í fullu tré við þá. Það gefur mönnum býsna mikið og styrkir sjálfsmyndina. Ef sjálfsmyndin er það sem við erum að vinna í á hverjum degi þá styrkist hún í þess háttar aðstæðum.“

Orkan þarf að vera til staðar á móti FH

Breiðablik er á toppnum þegar aðeins tvær umferðir eru eftir af Pepsí Max deildinni eins og áður segir. Liðið hefur tveggja stiga forskot á Víking. Hefur Óskar sannfæringu fyrir því að bikarinn sé á leið í Smárann?

Ég leyfi mér ekki að hugsa um það. Við tókum snemma þá ákvörðun að reyna að vera í núinu og taka þessu eins og það kemur. Næsti leikur er mjög erfiður leikur gegn FH í Kaplakrika í sunnudaginn. Þar þarf orkustigið að vera rétt. Við vitum hvað það er sem hefur komið okkur á þennan stað. Það er góð frammistaða, mikil orka og dugnaður. Við þurfum að sjá til þess að það sé í lagi á sunnudaginn og eftir það getum við talað saman um næsta leik á eftir, sagði Óskar þegar mbl.is tók hann tali að loknum sigurleiknum gegn Val þar sem Breiðablik hafði betur 3:0.

Gísli Eyjólfsson, Jason Daði Svanþórsson og Höskuldur Gunnlaugsson áttu ófáa …
Gísli Eyjólfsson, Jason Daði Svanþórsson og Höskuldur Gunnlaugsson áttu ófáa sprettina sem gerðu Valsmönnum erfitt fyrir. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

„Mér fannst við vera sterkari aðilinn og kraftmeiri. Mér fannst vera meiri orka í okkur og fannst við leggja meira í leikinn. Við vorum með frumkvæðið en þegar við skorum fyrsta markið þá breytist leikurinn auðvitað svolítið. Þá eru þeir að elta. Þá þurftu þeir að koma framar á völlinn og það hentaði okkur ljómandi vel. Fram að því er þetta leikur tveggja liða þar sem annað liðið er meira með boltann og er að reyna að opna hitt lið. Það er mjög erfitt að opna Valsliðið. Þeir eru vel skipulagðir, agaðir, sterkir í návígum og í stöðunni einn á móti einum. Það var alltaf ljóst að þetta yrði erfitt og að við þyrftum að nýta þau tækifæri sem myndu bjóðast.

Ég sá ekki hvort þetta var rangstaða þegar mark var dæmt af okkur í fyrri hálfleik en hef heyrt að það hafi ekki verið. Þetta snérist um fyrsta markið. Burtséð frá því hvort við vorum sterkari aðilinn fram að því eða ekki þá snérist þessi leikur um hvort liðið myndi skora fyrsta markið. Við náðum því. Það hefur vantað í þeim leikjum sem við höfum ekki unnið því við vinnum yfirleitt leikina þar sem við skorum fyrsta markið,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson ennfremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert