Heitir því að takmarka fólksflutninga eftir metár

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands.
Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands. AFP/Ben Stansall

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, hefur heitið því að takmarka fólksflutninga til landsins, eftir að opinberar tölur yfir fjölda nýrra innflytjenda á síðasta ári í Bretlandi voru birtar í morgun. 

Í heildina fluttu um 606 þúsund fleiri til Bretlands á síðasta ári en fluttu burt. Árið á undan var fjöldinn um 488 þúsund.

Inntur eftir viðbrögðum sagði forsætisráðherrann umfang fólksflutninga til landsins vera of mikið. Sagði hann aðgerðir á borð við þær sem kynntar voru í síðustu viku, sem takmarka fjölda alþjóðlegra nemenda í breskum skólum sem mega flytja fjölskyldur sínar með sér til landsins, eiga eftir að hafa umtalsverð áhrif.

Jay Lindop, forstjóri miðstöðvar alþjóðlegra fólksflutninga hjá bresku hagstofunni, sagði að stórir atburðir á borð við heimsfaraldur Covid-19 og innrásarstríð Rússa í Úkraínu, spiluðu veigamikið hlutverk í auknu umfangi fólksflutninga.

„Röð ófyrirsjáanlegra heimsatburða í gegnum árið 2022, og aflétting samkomu- og ferðatakmarkana í kjölfar kórónuveiruheimsfaraldursins, leiddi til þess að nýtt met var slegið í alþjóðlegum fólksflutningum til Bretlands,“ sagði Lindop.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert