fbpx
Föstudagur 17.maí 2024
Fréttir

Mikið frost framundan – Góð ráð fyrir húsið, bílinn og heimilið í frostatíð

Heimir Hannesson
Þriðjudaginn 17. nóvember 2020 11:09

mynd/fréttablaðið

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dágóður gaddur er nú í kortunum og tekur að herða á frosti nú síðdegis. Í nótt spáir veðurstofan sex stiga frosti í borginni og öðru eins meðfram ströndinni hringinn í kringum landið. Í innsveitum og á hálendinu gæti frostið slegið í tveggja stafa tölu á miðvikudagskvöldið. Enn harðnar svo á fimmtudaginn þegar búast má við allt að átta stiga frosti í borginni.

Veðurstofan spáir svo hlýnandi veðri og úrkomu á föstudaginn og svo aftur miklu frosti seinni part helgar.  Ljóst er að veturinn er framundan. Það er því ekki úr vegi að skoða nokkur atriði svo maður láti ekki neitt koma sér á óvart í komandi vetrarhörku.

Eru ofnarnir í lagi

Gott er að láta pípulagningamann skoða og stilla ofnakerfið á hverju hausti. Píparar fara þá yfir hvern oft, stilla þá auk þess að skoða inntakið, þrýstijafnara og fleira. Margir slökkva á sumum ofnum heimilisins yfir sumartímann og getur það orsakað bilanir eftir að hafa staðið hreyfingarlausir í nokkra mánuði. Gott er að tryggja að ofnar séu lofttæmdir, en það er hægt að gera með einföldum ofnalykli sem kostar 100 kall í næstu byggingavöruverslun. Hitni ofn ekki eru allar líkur á að hitastillir ofnsins sé stíflaður. Hér borgar sig alltaf að fá pípulagningamann í verkið.

Þráðlausir hitastillar á gólfhitakerfum eru háðir batteríum sem oft eru sökudólgurinn þegar herbergi eru köld. Þá gæti þurft að tengja hitastillinn aftur við stjórnstöð gólfhitakerfisins við gólfhitakistuna svokölluðu. Þetta er einfalt verk fyrir góðan pípara.

Ef snjóbræðslukerfi er til staðar er ágætt að fá pípara til þess að yfirfara það. Ef kerfið er „lokað,“ þ.e. með frostlegi, er gott að skoða hvort nægilegur þrýstingur sé á því og hvort kominn sé tími til þess að bæta inn á kerfið.

Tryggja að gluggar og hurðar lokist og einangri vel

Eru gluggar og hurðir nægilega vel einangraðar? Það er ekki til mikils að kynda húsið í botn ef hitinn sleppur allur út. Í eldri húsum er ekki óalgengt að gluggar lokist ekki almennilega, eða að blási með fram þeim. Hér gæti nægt að skipta um gluggagúmmíið eða setja eilitla kíttirönd þar sem gler mætir gluggapóstum.

Bíllinn

Rafgeymar bregðast illa við frosti. Ef rafgeymirinn er orðinn tæpur er við því að búast að hann verði enn verri í miklu frosti og bíllinn gæti ekki farið í gang. Rafgeymar kosta ekki mikinn pening og alveg vel þess virði að láta mæla þá á viðeigandi verkstæði og skipta um hann ef kominn er tími á það.

Til eru lásasprey svokölluð, eða bara wd-40 til að setja í læsingar á bílum. Það smyr læsingarnar að innan og hindrar að raki komist þar inn og frjósi. Svo er gott að úða eilitlu sílikoni á hurðagúmmí til að koma í veg fyrir að gúmmíið frjósi ítrekað fast við hurðina. Þá gæti gúmmíið farið að rifna sem er fullkominn óþarfi og auðvelt að koma í veg fyrir það.

Vetrardekk. Nagladekk. Skiptir ekki máli. Rennislétt sumardekk eru hið minnsta stórhættuleg og borgar sig að skipta um þau strax. Sumardekk eru harðari en vetrardekk og harðna enn þegar herðir á frosti. Auk þess eru þau sléttari. Vetrardekk haldast mjúk í frosti og eru sérstaklega hönnuð til þess að grípa betur á hálu yfirborði vegs.

Þegar loft kólnar þéttist raki í loftinu og myndar vatnsdropa. Ef þetta gerist í eldsneytistanki bifreiðar getur farið illa. Því er gott að fylla tankinn fyrir frostnætur og reyna að hafa tankinn sem fyllstan á meðan frostatímabil ganga yfir. Því meiri eldsneyti, því minna loft í tanknum. Eins er mikilvægt að tryggja að vökvar eins og kælivökvi í vatnskassa og rúðupiss séu með réttum frostlegi. Aðgát skal höfð þegar lok eru opnuð á vél þar sem þar getur heitur vökvi verið undir þrýstingi. Ef þú veist ekki hvað þú ert að gera, farðu með bílinn til sérfræðinga á bílaverkstæðum og láttu þá kíkja á kaggann. Það marg borgar sig.

Gömul rúðuþurrkublöð eru líklegri til þess að frjósa föst við rúðuna, og eins er gott að lyfta rúðuþurrkunum frá rúðunni á kvöldin ef hætta er á snjókomu eða miklu frosti. Það kemur í veg fyrir að þau frjósi föst við og rifni þegar þeim er kippt af frosinni rúðunni.

Startkaplar kosta lítið og geta sparað mikinn tími og vesen á örlagastund þegar bíllinn fer ekki í gang á köldum vetrarmorgni. Þeir fást á öllum betri bensínstöðvum.

Garðurinn og heimilið

Svo er ágætt að nefna að sé vatnsþrýstingur á garðslöngum eða garðkrönum gæti það endað mjög illa. Vatn þenst út þegar það frýs og sprengir gjarnan lagnir ef þær frjósa. Ef frýs í garðkrana getur lögnin sprungið inn í útvegg húss og farið að leka þar. Þess konar tjón getur verið mjög dýrkeypt. Því er gott að slökkva á öllu vatni í garðinn. Eins er mikilvægt að ganga frá heita pottinum eða fuglatjörninni þannig að frostskemmdir geti ekki orðið. Vatn á ekki að vera undir þrýstingi þar sem það getur frosið og þarf að geta runnið af sjálfsdáðum burt með réttum vatnshalla.

Svo er gott að eiga poka af salti fyrir útitröppurnar og hafa skófluna til taks. Ef snjórinn er mokaður áður en hann er traðkaður niður minnka líkurnar á að snjórinn hnoðist í íshellu sem getur verið hættuleg og erfiðara er að fjarlægja.

Gott er að hreinsa laufblöð og annað lauslegt rusl frá rennum, niðurföllum og af þökum áður en frýs. Ef slíkt fer ofan í rennur og frýs þar fast gæti verið erfitt að losna við það á meðan frostið stendur yfir. Svo þegar hlýnar og snjór og klaki fer að bráðna burt nær vatnið ekki að skola sig burt í niðurföllum og rennum og þannig getur vatn flætt þangað sem það á ekki að fara.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Óvæntur gestur á íslenskum heimilum: Segir fólk fyllast ótta og jafnvel vilja selja húsið sitt

Óvæntur gestur á íslenskum heimilum: Segir fólk fyllast ótta og jafnvel vilja selja húsið sitt
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Breska ríkið fjármagnar rannsókn á vindmyllum á hafi úti við Ísland – Fyrsta vettvangsferðin í ágúst

Breska ríkið fjármagnar rannsókn á vindmyllum á hafi úti við Ísland – Fyrsta vettvangsferðin í ágúst
Fréttir
Í gær

Fleiri nýleg gjaldþrot Ásgeirs – Mörg hundruð milljónir í súginn

Fleiri nýleg gjaldþrot Ásgeirs – Mörg hundruð milljónir í súginn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhanna Vigdís fær á baukinn eftir viðtal við Höllu Hrund: „Furðulegar spurningar satt að segja“

Jóhanna Vigdís fær á baukinn eftir viðtal við Höllu Hrund: „Furðulegar spurningar satt að segja“