Enski boltinn

Mark­vörður New­cast­le í að­gerð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pope mun ekki standa vaktina gegn Chelsea um næstu helgi.
Pope mun ekki standa vaktina gegn Chelsea um næstu helgi. EPA-EFE/Andrew Yates

Nick Pope, markvörður Newcastle United, mun ekki leika með liðinu í síðustu umferð ensku úrvalsdeildarinnar þar sem hann er á leið í aðgerð.

Hinn 31 árs gamli Pope er meiddur á hendi og mun ekki ná að klára tímabilið með Newcastle. Ekki er vitað hversu lengi hann verður frá en þar sem Newcastle hefur þegar tryggt sér þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð verður hans ekki of sárt saknað.

Þá mun Pope einnig missa af komandi landsliðsverkefni Englands í undankeppni EM 2024 þar sem Englendingar mæta Möltu og N-Makedóníu. Gareth Southgate valdi þá Jordan Pickford, Aaron Ramsdale og Sam Johnstone í leikina tvo.

Pope verður því fjarri góðu gamni þegar Newcastle mætir Chelsea í 38. og síðustu umferð tímabilsins.

Ekki er vitað hvaða markvörður mun standa vaktina í markinu en Eddie Howe valdi Loris Karius þegar Pope var í leikbanni í 2-0 tapi gegn Manchester United í úrslitum enska deildarbikarsins. Hinir tveir markverðirnir sem koma til greina eru Martin Dúbravka og Mark Gillespie.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×