Fjöldi smita mögulega vanmetinn hérlendis

Þórólf­ur Guðna­son sótt­varna­lækn­ir,
Þórólf­ur Guðna­son sótt­varna­lækn­ir, Ljósmynd/Almannavarnir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að mögulega hafi fleiri smitast af kórónuveirunni hérlendis en gert hafi verið ráð fyrir. Hann telur þó ekki nauðsynlegt að farið sé í víðtæka mótefnamælingu, eins og áður hefur verið gert. 

„Ég held að fjöldi sýkinga, ef maður mælir hana bara með pcr-prófum, að hann sé vanmetinn,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í dag. 

Hann benti á að í rannsókn fyrr í vetur hafi komið fram að fjölmargir væru með mótefni sem ekki hefðu sögu af veikindum og aldrei farið í pcr-próf. 

„Þá voru það allt upp undir helmingi fleiri sem voru með slíkt mótefni. Það er mögulegt að fleiri hafi smitast hér en við gerðum ráð fyrir,“ segir Þórólfur.

Um það hvort ráðast þurfi í mótefnamælingu að nýju segir hann:

„Mér finnst í sjálfu sér ekki vera ástæða til þess að fara í einhverja svona herferð aftur. Ég sé ekki hvaða tilgangi það ætti að þjóna. Ef við erum að tala um bólusetningar þá er bóluefnið alveg skaðlaust þeim sem hafa smitast áður þannig að ég tel ástæðulaust að vera eitthvað að leita að þeim einstaklingum með einhverju miklu átaki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert