Danir sendu Englendinga niður í þriðja sæti

Christian Eriksen skorar úr vítaspyrnunni fyrir Dani á Wembley í …
Christian Eriksen skorar úr vítaspyrnunni fyrir Dani á Wembley í kvöld. AFP

Englendingar eru dottnir niður í þriðja sætið í 2. riðli Þjóðadeildarinnar í fótbolta, riðli Íslands, eftir ósigur gegn Dönum á Wembley í kvöld, 0:1.

Harry Maguire, miðvörður enska landsliðsins, var rekinn af velli á 34. mínútu og dæmd vítaspyrna sem Christian Eriksen skoraði úr.  Eriksen lék sinn 100. leik í kvöld og er yngsti landsliðsmaður Dana sem nær þeim áfanga, 28 ára gamall. Simon Kjær lék einnig sinn 100. landsleik.

Englendingar fengu annað rautt spjald eftir að flautað var til leiksloka en bakvörðurinn Reece James, sem var í fyrsta sinn í byrjunarliði Englands, fékk spjaldið fyrir ummæli við dómarann í leikslok.

Belgar eru með 9 stig eftir fjórar umferðir, Danir 7 stig, Englendingar 7 stig en Íslendingar eru án stiga.

Ítalía og Holland skildu jöfn, 1:1. Lorenzo Pellegrini kom Ítölum yfir á 16. mínútu en Donny van de Beek jafnaði fyrir Hollendinga á 25. mínútu.

Robert Lewandowski skoraði tvö mörk fyrir Pólverja sem unnu öruggan sigur á Bosníu, 3:0, í hinum leik 1. riðils.

Pólland er með 7 stig, Ítalía 6 og Holland 5 stig en eru með 2 stig.

Portúgalar, án Cristiano Ronaldo, sigruðu Svía örugglega, 3:0, í 3. riðli. Bernardo Silva og Diogo Jota skoruðu í fyrri hálfleiknum. Jota bætti síðan við marki í seinni hálfleik.

Frakkar unnu útisigur á Króötum, 2:1. Antoine Griezmann kom Frökkum yfir strax á 8. mínútu en Nikola Vlasic jafnaði fyrir Króata á 65. mínútu. Kylian Mbappé skoraði sigurmark Frakka á 79. mínútu.

Portúgal er þá með 10 stig, Frakkland 10, Króatía 3 en Svíþjóð ekkert stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert