Refskák í Norður-Írlandi og Foster mát

Paul Givan, verðandi fyrsti ráðherra Norður-Írlands.
Paul Givan, verðandi fyrsti ráðherra Norður-Írlands. AFP

Norðurírski þingmaðurinn Paul Givan mun taka við sem fyrsti ráðherra Norður-Írlands þegar Arlene Foster, sem nú gegnir embættinu, stígur til hliðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lýðræðislega sambandsflokknum (DUP) í dag.

Formaður flokksins, Edwin Poots, segir í tilkynningu að hinn 39 ára gamli Givan, sem þekktur er fyrir harðlínuskoðanir sínar á sambandi Norður-Írlands og Bretlands, muni taka stöðu Foster, en henni var bolað frá í hálfgerðu valdaráni innan flokksins vegna óánægju með hvernig hún tók á útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Verðandi fyrsti ráðherra horfir dreyminn á formann sinn, Edwin Poots. …
Verðandi fyrsti ráðherra horfir dreyminn á formann sinn, Edwin Poots. Þeir eru sammála um að Norður-Írland skuli áfram tilheyra bresku krúnunni. AFP

Poots sagði jafnframt í norðurírska þinginu, Stormont, í dag að ný ríkisstjórn tæki við á mánudag. Það er töluvert fyrr en Foster hafði í hyggju en hún hugðist hætta í lok júní.

Givan er sagður vera íhaldssamur og er einarður stuðningsmaður fyrrnefnds Poots. Sá er nýbakaður formaður DUP og er sagður ætla að heyja blóðuga baráttu gegn öllum þeim sem ýja að því að Norður-Írland skuli slíta sambandi sínu við Bretland í kjölfar Brexit.

Arlene Foster, fráfarandi fyrsti ráðherra.
Arlene Foster, fráfarandi fyrsti ráðherra. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert