Lægðar að vænta á sunnudag

Búast má við dálítilli rigningu eða slyddu á sunnanverðu landinu, …
Búast má við dálítilli rigningu eða slyddu á sunnanverðu landinu, en sjókomu og slyddu öðru hvoru fyrir norðan. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lægðabóla skammt suður af landinu mun í dag þokast til vesturs og valda stífri norðanátt syðst á landinu og á Vestfjörðum. Búast má við dálítilli rigningu eða slyddu á sunnanverðu landinu, en sjókomu og slyddu öðru hvoru fyrir norðan. 

Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands að það snúist í hægari suðaustanátt síðdegis og létti smám saman til. Á sunnudag komi ný lægð sunnan úr hafi og fer hún austur fyrir land. Vindur snýst þá til norðanáttar, strekkingur og allhvass með úrkomu á austanverðu landinu, en annars mun hægara og úrkomulítið. 

Snýst í heldur hæga vestlæga átt á mánudag með dálitlum skúrum eða éljum hér og þar, en þurrt að kalla eystra. Hiti víða 0 til 5 stig, en sums staðar vægt frost fyrir norðan.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:
Norðlæg átt, 8-13 m/s og rigning eða slydda með köflum og snjókoma til fjalla, en hægara og úrkomulítið S- og V-lands. Hiti 0 til 7 stig, hlýjast á SA-landi.

Á mánudag:
Vestlægar áttir, 3-10 m/s og sums staðar dálitlar skúrir eða él, en yfirleitt þurrt og bjart eystra. Hiti víða 0 til 5 stig.

Á þriðjudag:
Gengur í allhvassa eða hvassa austan- og norðaustanátt með slyddu eða rigningu og snjókomu til fjalla, fyrst SA-lands, en lengst af þurrt um landið N- og V-vert. Hiti víða 0 til 5 stig, en vægt frost fyrir norðan.

Á miðvikudag:
Ákveðin norðaustlæg átt og dálítil rigning eða slydda víða um land, en úrkomulítið NV-til. Hiti kringum frostmark.

Á fimmtudag:
Norðlæg eða breytileg átt og dálítil úrkoma með köflum, einkum A-til. Hiti kringum frostmark.

Á föstudag:
Útlit fyrir vaxandi suðaustanátt með rigningu S- og V-lands um kvöldið og hlýnandi veður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert