Pelosi mun leiða demókrata í þinginu

Nancy Pelosi.
Nancy Pelosi. AFP

Nancy Pelosi, forseti frulltrúadeildar Bandaríkjaþings, hefur verið kjörin af flokkssystkinum sínum í Demókrataflokknum til þess að leiða flokkinn á bandaríska þinginu í forsetatíð Joe Biden, verðandi forseta Bandaríkjanna. Þar með heldur hún áfram að leiða þingið, nú með enn minni þingmeirihluta demókrata en á síðasta kjörtímabili.

Hún hefur þó ekki enn verið kjörin til áframhaldandi setu á forsetastóli fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, en þó er hún talin mjög líkleg til þess að hljóta það kjör einnig. Það fer fram í janúar næstkomandi, skömmu áður en Biden sver embættiseið sem forseti Bandaríkjanna.

Pelosi kvað þetta mikinn heiður og lofaði að ganga strax til verks við að „berja niður“ stöðugan uppgang kórónuveirunnar í Bandaríkjunum.

Pelosi var einnig tíðrætt um réttlæti. Hún sagði að það næsta sem Bandaríkjaþing verður að beina sjónum sínum að sé „efnahagslegt réttlæti, réttarfarslegt réttlæti, réttlæti í umhverfismálum og réttlæti innan heilbrigðiskerfisins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert