Olli skemmdum á sameign fjölbýlishúss

Ölvaður maður í annarlegu ástandi var handtekinn um hálfsexleytið í gærkvöldi eftir að hafa valdið skemmdum á sameign fjölbýlishúss. Maðurinn var ósjálfbjarga sökum ölvunar.

Hann var vistaður í fangaklefa sökum ástands, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Tilkynnt var um slagsmál í miðbæ Reykjavíkur um hálftólfleytið í gærkvöldi. Einn var handtekinn á vettvangi og var hann fluttur á lögreglustöð í upplýsingatöku. Einn sem slasaðist var fluttur á bráðamóttöku til skoðunar.

Ökumaður var handtekinn um hálfeittleytið grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Hann var fluttur á lögreglustöð í sýnatöku. 

Neitaði að greiða fargjaldið

Leigubílstjóri í umdæmi lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti óskaði aðstoðar vegna farþega sem að neitaði að greiða fargjaldið laust fyrir klukkan fimm í morgun. Sá hafði reynt að hlaupa undan en lögregla náði tali af honum.

Um sexleytið í gærkvöldi var síðan tilkynnt um trampólín sem að hafi fokið úr garði í Mosfellsbæ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert