Búa sig undir mögulegar hamfarir

Björgunarsveitin Þorbjörn hélt nokkuð umfangsmikla en hefðbundna æfingu í Grindavík …
Björgunarsveitin Þorbjörn hélt nokkuð umfangsmikla en hefðbundna æfingu í Grindavík í gærkvöldi þar sem viðbrögð við náttúruhamförum voru meðal annars æfð. Ljósmynd/Otti Sigmarsson

„Þetta var bara partur af okkar dagskrá,“ segir Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjörns í Grindavík. Björgunarsveitin bjó sig undir mögulegar náttúruhamfarir og setti upp stórar tjaldbúðir í gærkvöldi en þær eru hluti af hópslysabúnaði sveitarinnar.

Bogi segir tímasetningu æfingarinnar tilviljun en sveitin þurfi að vera undir flest búin og æfi sig meðal annars í að setja upp tjaldbúðir um það bil einu sinni á ári.

Tjöldin, sem eru bæði upphituð og upplýst, er hægt að nota í alls konar verkefni eins og til að mynda sem vettvangsstjórnstöð eða til þess að koma fórnarlömbum hópslysa í skjól.

Á skilti fyrir framan tjöldin kemur fram að um æfingu …
Á skilti fyrir framan tjöldin kemur fram að um æfingu hafi verið að ræða. Um 30 félagar sveitarinnar tóku þátt í æfingunni. Ljósmynd/Otti Sigmarsson

Það tók um hálftíma að setja allt upp en æfingin snerist um að nota búnaðinn við sem raunverulegastar aðstæður. Að lokinni æfingu var tekinn smá fundur þar sem rætt var hvað væri hægt að bæta og laga varðandi uppsetninguna en einnig punktað niður ýmislegt sem vantaði eða er þörf á að uppfæra.

„Sumir bjuggust við einhverjum hamförum en við settum til öryggis skilti þar sem fram kom að þetta var æfing,“ segir Bogi. Að æfingu lokinni voru tjaldbúðirnar fjarlægðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert