Mjög óvænt en fallegt samband

Kristófer Acox var kjörinn besti leikmaður ársins.
Kristófer Acox var kjörinn besti leikmaður ársins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristófer Acox var í gær kjörinn besti leikmaður ársins í úrvalsdeild karla í körfubolta, Subway-deildinni. Kristófer var fyrirliði og lykilmaður hjá Val, sem varð Íslandsmeistari í fyrsta skipti í 39 ár.

Kristófer varð í þrígang Íslandsmeistari með KR og hefur unnið öll fjögur úrslitaeinvígi sín á ferlinum til þessa. Þrátt fyrir reynsluna af stórum leikjum viðurkennir hann að það taki á taugarnar að spila úrslitaleiki.

„Maður finnur fyrir því fyrir leiki og þegar þú ert kominn á gólfið en þegar þú byrjar að spila er þetta bara körfuboltaleikur. Í oddaleik er samt sem áður allt undir, en maður gerir sitt besta. Ég hef ekki upplifað að tapa úrslitaseríu enn þá og vonandi heldur það áfram,“ sagði Kristófer við mbl.is.

Kristófer Acox og Kári Jónsson náðu afar vel saman í …
Kristófer Acox og Kári Jónsson náðu afar vel saman í vetur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einn af lykilþáttum í velgengni Vals á leiktíðinni var samvinna Kristófers og Kára Jónssonar, en þeir eru liðsfélagar í landsliðinu. Þeir náðu einkar vel saman á vellinum í vetur og ekki síður í úrslitakeppninni í vor.

„Þetta var mjög óvænt en fallegt samband sem mótaðist í vetur. Við höfum spilað saman í landsliðinu og ég man við sátum í köldu baði í Svartfjallalandi með landsliðinu og við djókuðum með að hann myndi koma í Val. Svo var það allt í einu orðið að veruleika. Við náðum rosalega vel saman og erum eins og bræður. Það hjálpaði okkur að blómstra inni á vellinum,“ sagði Kristófer um sambandið við liðsfélaga sinn.

Nánar er rætt við Kristófer í Morgunblaðinu sem kom út í morgun. Þar er einnig rætt við Dagnýju Lísu Davíðsdóttur, sem var kjörin besti leikmaður ársins í kvennaflokki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert