Bogi Nils: Útlit fyrir gott uppgjör á þriðja ársfjórðungi

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ótrúlegt að hugsa til þess að í júní í fyrra gerði félagið nánast ekki neitt. Þannig að þessi breyting hefur gerst alveg ótrúlega hratt, að fara úr nánast engu í að vera næstum því komin á sama stað og fyrir Covid. Starfsfólk félagsins hefur gert kraftaverk í krefjandi aðstæðum í að koma félaginu á þennan stað.“

Þetta segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í viðtali við Flugvarpið, sem er hlaðvarp um flugmál.

Icelandair skilaði um hálfum milljarði króna í hagnað af öðrum ársfjórðungi þessa árs. Það er í fyrsta sinn frá 2017 sem félagið skilar hagnaði. Áætlanir félagins fyrir seinni sex mánuði ársins gera jafnframt ráð fyrir hagnaði. Sætanýting félagsins hefur verið góð síðustu mánuði og Bogi Nils staðfestir í þættinum að útlit sé fyrir sterkt uppgjör af þriðja ársfjórðungi.

Leiðakerfið gengið vel í sumar

„Við náðum góðum einingatekjum á [öðrum árfjórðungi] og höfum sagt að þær verði enn sterkari á [þriðja ársfjórðungi] þannig að útlitið er fínt. Bókanir fyrir næstu mánuði eru góðar eins og séð verður, en samt er ákveðin óvissa varðandi verðbólgu og kostnaðarhækkanir og hvernig hlutir þróast í Austur-Evrópu,“ segir Bogi Nils.

Icelandair var á þriðja ársfjórðungi með ríflega 80% af framboði í samanburði við 2019 en áætlanir félagins gera ráð fyrir að bjóða um 90% af framboðinu 2019 á fjórða ársfjórðungi þessa árs og nálægt 100% á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. Bogi Nils segir að það þýði ekki endilega að framboðið verði komið í 100% yfir háönnina á næsta ári. Þó sé reiknað með nokkrum vexti á milli ára yfir háannatímann.

Að sögn Boga Nils hefur leiðakerfi félagsins gengið vel í sumar þrátt fyrir ýmsar áskoranir og er það ekki síst því að þakka að Icelandair hefur rekið fleiri en einn banka inn og út úr Keflavík. Þannig hefur, að hans sögn, mátt lágmarka röskun fyrir viðskiptavini félagsins þegar seinkanir urðu t.d. á flugvöllum erlendis, þar sem hægt var að flytja farþega á aðrar brottfarir frá Keflavík innan sama dags. Þá hefur verið gott jafnvægi í flugumferð á milli Ameríku og Evrópu sem er afar mikilvægt. Loks hafa nýir áfangastaðir félagsins, eins og Raleigh-Durham, Róm og Nice, gengið mjög vel.

Framtíðarfloti Icelandair valinn

Einnig kemur fram í þættinum að stjórnendur Icelandair leiti nú tilboða hjá Airbus og Boeing í tvær sviðsmyndir félagsins varðandi flugflota þess til framtíðar. Eftir greiningarvinnu stjórnenda Icelandair í fyrra var niðurstaðan sú að á borðinu væru tveir góðir kostir sem félaginu standa til boða.

„Það er annars vegar að nota áfram Boeing 737MAX-vélarnar og þá ásamt Boeing 767 sem síðar yrði skipt út fyrir 787-vélar. Hins vegar væri að fara alfarið yfir í Airbus-flota,“ segir Bogi Nils.

„Nú erum við að fara til Toulouse að ræða við Airbus og í framhaldinu til Seattle til Boeing til að fá tilboð í þessa tvo kosti. Þeir verða síðan metnir og ákvörðun tekin í framhaldi af því.“

Bogi segir líklegt að niðurstaðan ætti að liggja fyrir á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. Þá kemur fram að félagið horfi til þess að leggja síðustu Boeing 757-flugvélinni í farþegafluginu í kringum 2026.

„Þá þyrftum við að vera komin með vélar til að taka við fluginu sem 757-vélin þjónar í dag,“ segir Bogi Nils.

Icelandair rekur í dag 14 Boeing 737MAX-vélar og miðað við þá samninga sem nú eru á borðinu verða þær vélar orðnar 20 talsins á síðari hluta næsta árs.

„Við höfum haft þá strategíu alveg síðan við byrjuðum að taka inn MAX-vélarnar að vera með ákveðinn glugga í leigusamningum þannig að ef við förum í Airbus þá gæti flotinn verið orðinn eingöngu Airbus vélar um 2032,“ segir Bogi Nils.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK