Stjórn Iceland Seafood International (ISI) hefur ákveðið að stöðva söluferli á breska dótturfélaginu Iceland Seafood UK eftir að félaginu tókst ekki að ná samkomulagi við áhugasama aðila. Iceland Seafood hyggst nú reka breska dótturfélagið áfram um sinn.

Stjórn ISI tilkynnti um miðjan nóvember að hún hefði ákveðið að yfirgefa Bretlandsmarkað, þar sem rekstur breska dótturfélagsins Iceland Seafood UK hefði gengið erfiðlega á síðustu þremur árum. Síðan þá hefur í tvígang slitnað upp úr viðræðum eftir að félagið hafði skrifað undir viljayfirlýsingu við áhugasama aðila.

Í tilkynningu sem stjórnin sendi frá sér í morgun segir hún að þörf sé á samþjöppun í iðnaðinum og það sé meðal ástæðna fyrir áhuganum á sölu breska dótturfélagsins. Hins vegar hafi hún talið að þær tillögur sem komu upp í söluviðræðum endurspegli ekki virði breska dótturfélagsins.

„Iceland Seafood mun endurskoða stefnu sína með reglulegum hætti og félagið hefur áfram áhuga á að styðja við frekari samþjöppun á breska markaðnum við réttan tíma og ásættanlega skilmála.“

Félagið segir jafnframt að reksturinn í Bretlandi hafi tekið miklum framförum, m.a. í ljósi þess að breska dótturfélagið víkkaði út starfsemi sína ásamt því að samstarfsaðilar hafa verið að jafna sig eftir miklar kostnaðarhækkanir í fyrra.

ISI telur að breska félagið muni skila betri rekstrarniðurstöðum á næstunni en hún segir að sveiflur á markaðnum og kostnaðarhækkanir bitnuðu verulega á rekstrinum í fyrra.