Vilja að Alves verði sleppt gegn lausnargjaldi – eiginkonan sækir um skilnað

Dani Alves.
Dani Alves. AFP/Ulises Ruiz

Lögfræðingur brasilíska knattspyrnumannsins Dani Alves hefur farið fram á það við dómstóla í Barcelona að honum verði sleppt úr fangelsi gegn lausnargjaldi. 

AP greinir frá.

Alves var handtekinn þann 20. janúar síðastliðinn vegna gruns um nauðgun á konu á skemmtistað í Barcelona þann 30. desember síðastliðinn.

Eftir að hafa hlýtt á framburð Alves, meints fórnarlambs og eins vitnis fyrirskipaði dómari að hann skyldi færður til fangelsisvistar í borginni án lausnargjalds.

Léti vegabréf af hendi og bæri ökklaband

Lögfræðingur Alves hefur nú lagt fram beiðni til dómarans um að endurskoða ákvörðun sína og gefa Brasilíumanninum færi á að greiða lausnargjald.

Skilyrðin sem lögfræðingurinn setur fram eru loforð Alves um að láta af hendi vegabréf sitt og fara ekki úr landi, koma ekki nær meintu fórnarlambi en 500 metra og að bera ökklaband svo lögregla geti sinnt rafrænu eftirliti.

Ástæðuna fyrir kröfunni segir hann vera misræmi í framburði meints fórnarlambs.

Sótti um skilnað

Alves kvaðst upphaflega „aldrei hafa séð þessa konu“ en viðurkenndi síðar að hafa haft mök við hið meinta fórnarlamb, sem hann segir hafa verið með samþykki hennar.

Ástæðuna fyrir upphaflegu ósannsögli sínu sagði Alves hafa verið í því skyni að vernda eiginkonu sína, spænsku fyrirsætuna Joönu Sanz.

Samkvæmt Marca hefur hún nú farið fram á skilnað við Alves.

Ástæðan fyrir því að Sanz hefur ákveðið að sækja um skilnað tengist ekki mögulegri sekt eða sakleysi hans, heldur þeirri staðreynd að Alves hafi verið henni ótrúr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert