Í frumvarpi nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins er lögð til lækkun á framlögum ríkissjóðs til stjórnmálaflokka og að þeir fái aukna heimild til eigin tekjuöflunar. Diljá Mist Einarsdóttir, fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, segir í viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins að há ríkisframlög hafi svæft stjórnmálastarf í landinu og breytt stjórnmálaflokkum í ríkisstofnanir.

Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að lágmarksatkvæðafjöldi stjórnmálasamtaka sem geti fengið úthlutað fé úr ríkissjóð verði hækkað úr 2,5% í 4%. Diljá Mist segir tvö sjónarmið vegast á. Annars vegar um mikilvægi þess að undanskilja ekki sjálfkrafa flokka sem hafa ekki náð manni kjörnum á Alþingi í þágu lýðræðis og almennra skoðanaskipta. Hins vegar að hlutfallstalan hvetji ekki fólk til framboðs vegna möguleikans á fjáröflun, enda sé það ólýðræðislegt að úthluta fjármunum skattgreiðenda í þágu stjórnmálastarfsemi og hugmyndafræði sem þegar hafi verið hafnað í lýðræðislegum kosningum.

„Því er á móti lagt til að stjórnmálasamtök, sem ekki uppfylla skilyrði um framlög frá hinu opinbera, fái rýmri heimildir til sjálfstæðrar tekjuöflunar. Þar sem slík samtök þiggja ekki framlög frá hinu opinbera, auk þess að fara ekki með formlegt vald, er ekki ástæða til þess að setja sjálfstæðri tekjuöflun þeirra eins miklar skorður og ella.“

Vildi fyrst leggja styrkina niður

Eins og fram kom í frétt Viðskiptablaðsins í lok sumars er Sjálfstæðisflokkurinn sá flokkur sem hefur fengið mest úthlutað úr ríkissjóði á verðlagi dagsins í dag á tímabilinu 2010 til 2022, eða 1,7 milljörðum króna. Diljá Mist bendir á að flokkurinn hafi á árum áður lifað góðu lífi, jafnvel þó að hann hafi sjálfur þurft að bera ábyrgð á eigin tekjuöflun.

„Ég er áhugakona um ábyrg ríkisfjármál og svíður að fylgjast með þessum millifærslum,“ segir Diljá og kveðst upphaflega hafa hugsað sér að leggja það til að þessi ríkisframlög yrðu alfarið lögð af. „En eftir að hafa skoðað málið í þaula og aflað upplýsinga um hvernig háttur er hafður í nágrannalöndum okkar komst ég að því að þau eru öll með ríkisframlög fyrir stjórnmálasamtök. Kerfin eru þó misjöfn og t.d. í Þýskalandi er það bundið miklum skilyrðum. Ég bakkaði því með það að leggja til að ríkisframlagið yrði lagt af í bili, en taldi samt enn mikla þörf á að vekja stjórnmálaflokkana af þeim feigðarsvefni sem núverandi fyrirkomulag hefur skapað.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.