Landsliðsmarkvörðurinn fór á kostum

Viktor Gísli Hallgrímsson átti stórleik.
Viktor Gísli Hallgrímsson átti stórleik. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Markvörðurinn ungi Viktor Gísli Hallgrímsson átti stórleik fyrir GOG frá Danmörku í 33:24-sigri danska liðsins á heimavelli gegn Pfadi Winterthur frá Sviss í 2. umferð Evrópudeildarinnar í handbolta í dag. Viktor varði 17 skot og var með 45 prósent markvörslu. 

Sænska liðið Kristianstad gerði góða ferð til Póllands og vann 25:24-sigur á útivelli gegn Azoty Pulawy. Ólafur Andrés Guðmundsson skoraði tvö mörk fyrir Kristianstad en Teitur Örn Einarsson komst ekki á blað. 

Ýmir Örn Gíslason skoraði þrjú mörk fyrir Þjóðverjana í Rhein-Neckar Löwen í 28:22-útisigri á danska liðinu Holstebro á útivelli. Alexander Petersson var ekki í leikmannahópi Löwen og Óðinn Þór Ríkharðsson komst ekki á blað hjá Holstebro.

Þá komst Elvar Örn Jónsson ekki á blað hjá danska liðinu Skjern sem vann afar góðan 31:30-heimasigur á Montpellier frá Frakklandi. 

Síðari leikir einvígjanna fara fram á þriðjudaginn eftir viku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert