Úrskurðað um lögmæti sóttkvíarhótela í dag

Sóttkvíarhótelið við Þórunnartún.
Sóttkvíarhótelið við Þórunnartún. mbl.is/Árni Sæberg

Héraðsdómur Reykjavíkur mun í dag kveða upp úrskurð um lögmæti skyldusóttkvíar á sóttvarnahótelum.

Málflutningi lauk í gær í þremur málum, sem varða sjö einstaklinga, sem skikkaðir voru í sóttkví á sóttkvíarhóteli ríkisins í Þórunnartúni fyrir helgi. Krafan er að „úrskurður sóttvarnalæknis“, þ.e. sóttkvíin, verði felld úr gildi en til vara að fólkinu verði leyft að halda sóttkví heima hjá sér. Sóttvarnalæknir krefst þess að ákvörðunin verði staðfest.

Alls hafa fimm kærur, sem varða tólf einstaklinga, borist vegna sóttkvíarhótelanna en aðeins voru þrjár teknar fyrir í dag. Varla mun þó koma til þess að hinar verði teknar fyrir enda málið fordæmisgefandi.

Ómar R. Valdimarsson, einn lögmannanna, sagði í samtali við mbl.is í gær að aðstæður á hótelinu séu fráleitar og fólk yrði að gera sér grein fyrir því að þarna væri ekki um hóteldvöl að ræða. Hann eigi von á að fallist verði á kröfu umbjóðenda hans, en að öðrum kosti verði málinu skotið til Landsréttar.

Þinghald í málinu er lokað, en dómari féllst á kröfur Reimars Péturssonar lögmanns þess efnis. Gátu blaðamenn því ekki fylgst með málflutningi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert