Enski boltinn

New­cast­le nær í fram­herja frá keppi­nauti sínum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Chris Wood og Jóhann Berg Guðmundsson í baráttunni gegn Burnley.
Chris Wood og Jóhann Berg Guðmundsson í baráttunni gegn Burnley. Chris Lee/Getty Images

Það stefnir í að Chris Wood og Jóhann Berg Guðmundsson verði ekki samherjar hjá Burnley mikið lengur. Framherjinn frá Nýja-Sjálandi er svo gott sem búinn að skrifa undir hjá nýríku Newcastle United.

Eitt ríkasta íþróttafélag heims, Newcastle United, er í óðaönn að reyna festa kaup á leikmönnum til að halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni. Ekki veitir af en liðið datt út úr enska FA-bikarnum gegn Cambridge United um liðna helgi.

Wood mun aðeins kosta Newcastle litlar 20 milljónir sterlingspunda þar sem hann er með klásúlu í samningi sínum hjá Burnley sem gerir honum kleift að fara fyrir til annars félags fyrir þá upphæð.

Framherjinn á aðeins eftir að standast læknisskoðun en hann hefur nú þegar samið um kaup og kjör.

Newcastle fékk hægri bakvörðinn Kieran Trippier frá Atlético Madríd nýverið en virðist ekki þurfa að leita jafn langt til að bæta í framlínu liðsins. Hinn þrítugi Wood er þekkt stærð í ensku úrvalsdeildinni en hann hefur hrellt miðverði deildarinnar frá árinu 2017 en hann hefur leikið á Englandi síðan árið 2009.

Þá gekk hann í raðir West Bromwich Albion. Þaðan var hann lánaður til Barnsley, Birmingham City, Bristol City, Millwall og Leicester City sem síðan keyptu hann. Þaðan fór hann á láni til Ipswich Town áður en Leeds United keypti hann árið 2015.

Nú virðist sem þessi mikli markahrókur sé á leið til Newcastle og á hann að hjálpa félaginu að halda sæti sínu í deildinni. Newcastle er í 19. og næstneðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 11 stig að loknum 19 leikjum. 

Burnley er sæti ofar - og einnig í fallsæti - með jafn mörg stig en tvo leiki til góða. Aðeins eru þó tvö stig í Watford sem situr tveimur stigum fyrir ofan fallsætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×