Ekki besta tilfinning í heimi

Arnar Þór Viðarsson ræðir við leikmenn á æfingu á Laugardalsvelli.
Arnar Þór Viðarsson ræðir við leikmenn á æfingu á Laugardalsvelli. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nafnarnir Andri Lucas Guðjohnsen og Andri Fannar Baldursson hafa jafnað sig á meiðslum og eru klárir í leik Íslands og Liechtenstein í undankeppni HM í fótbolta annað kvöld. Andri og Andri voru ekki með gegn Armeníu á föstudaginn var.

„Andri og Andri voru með á æfingu í dag og það lítur vel út. Brynjar var líka með í dag og var í smá testi í lok æfingarinnar. Ég á eftir að fá upplýsingar um það. Eitt spurningamerki í viðbót er Mikael Anderson. Að öðru leyti eru allir heilir,“ sagði Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, á blaðamannafundi í dag.

Liechtenstein er ekki hátt skrifað í fótboltanum, en landslið þjóðarinnar er talið eitt það slakasta í Evrópu. Þrátt fyrir það tapaði Ísland 0:3 fyrir Liechtenstein árið 2007, í leik sem Arnar spilaði sjálfur. 

„Við nálgumst leikinn með virðingu fyrir andstæðingnum, eins og alltaf. Undir eðlilegum kringumstæðum erum við meira með boltann og við viljum stjórna leiknum. Við vitum hvað getur gerst ef menn vanmeta andstæðinginn. Ég var sjálfur í liði sem tapaði fyrir Liechtenstein og það er ekki besta tilfinning í heimi,“ sagði Arnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert