Leikmenn Tottenham telja tímaspursmál hvenær Conte fari

Antonio Conte.
Antonio Conte. AFP/Justin Tallis

Búist er við því að Antonio Conte, stjóri enska knattspyrnuliðsins Tottenham, stýri liðinu ekki á næstu leiktíð. Talið er að hann gæti verið látinn taka poka sinn, eða hætti sjálfur, í komandi landsleikjahléi, eða að yfirstandandi tímabili loknu.

Conte lét gamminn geisa á blaðamannafundi eftir jafntefli liðsins, 3:3, gegn Southampton á dögunum, þar sem liðið missti niður tveggja marka forystu. Hann sagði að það væru rótgróin vandamál innan klúbbsins sem væru ástæða þess að liðið hefur ekki unnið titil í mörg ár.

Breski miðillinn Sky Sports greindi frá því í dag að leikmenn Tottenham séu vissir um að liðið verði komið með nýjan stjóra fyrir næsta tímabil og að það sé tímaspursmál hvenær Conte fari.

Þar kemur jafnframt fram að leikmennirnir séu tilbúnir að axla ábyrgð fyrir slæmu gengi en þeim finnst Ítalinn hafa farið yfir strikið með því að kalla þá eigingjarna og sett spurningamerki við metnað þeirra fyrir félaginu eftir jafnteflið.

Tottenham er í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 49 stig, tveimur stigum meira en Newcastle. Liðið á næst leik þann 3. apríl, eftir landsleikjahlé, og því þarf stjórnarformaður félagsins, Daniel Levy, að ákveða á næstu dögum hvort hann vilji halda Conte sem stjóra eða ekki. Samningur Conte rennur út í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert