Tap í fyrsta leik B-landsliðsins

Sara Sif Helgadóttir var besti leikmaður íslenska liðsins í leiknum.
Sara Sif Helgadóttir var besti leikmaður íslenska liðsins í leiknum. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Auður Ester Gestsdóttir var markahæst í íslenska B-landsliði kvenna í handknattleik þegar liðið tapaði með fimm marka mun gegn norska 21 árs-landsliðinu í fjögurra liða æfingamóti sem fram fer í Cheb í Tékklandi í dag.

Norska liðið leiddi 14:8 í hálfleik en íslenska liðinu tókst að laga stöðuna í síðari hálfleik en að endingu voru það Norðmenn sem fögnuðu 25:20-sigri.

Auður Ester skoraði fjögur mörk, Sara Dögg Hjaltadóttir og Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoruðu þrjú mörk hvor fyrir Ísland og þær Elín Rósa Magnúsdóttir, Elna Ólöf Guðjónsdóttir og Birta Lind Jóhannsdóttir skoruðu tvö mörk hver.

Sara Sif Helgadóttir varði 12 skot í marki íslenska liðsins og Saga Sif Gísladóttir varði þrjú skot.

Næsti leikur íslenska B-liðsins verður gegn Sviss á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert