Æðaskjanni var einn jólagestanna

Hvít fiðrildi eins og æðaskjanni eru sjaldgæf og vekja athygli.
Hvít fiðrildi eins og æðaskjanni eru sjaldgæf og vekja athygli. Ljósmynd/Erling Ólafsson

Á gamlársdag fannst æðaskjanni á höfuðborgarsvæðinu í fjórða sinn svo staðfest sé og virðist hafa borist til landsins með dönskum normannsþin. Ferðamáti fiðrildisins, sem fannst á heimili í Reykjavík, var því sá sami og í þrjú fyrri skiptin. Fyrsti æðaskjanninn fannst 4. janúar 1987 í Reykjavík, næsti 14. janúar 2009 á Seltjarnarnesi og sá þriðji 3. janúar 2013 í Reykjavík og eru allar dagsetningarnar skömmu eftir jól.

Um þennan jólagest fjallar Erling Ólafsson skordýrafræðingur á facebook-síðunni Heimur smádýranna. Þar segir að líkast til hafi púpur borist með trjánum sem fiðrildin skriðu úr umvafin yl jólanna. „Hvít fiðrildi á flögri í nágrannalöndunum vekja gjarnan athygli okkar mörlandanna. Æðaskjanni er ein tegundanna og þekkist hann greiðlega á áberandi dökkum skuggum með æðum á gulleitu neðra borði afturvængjanna,“ skrifar Erling.

Á pödduvef Náttúrufræðistofnunar segir að útbreiðsla æðaskjanna sé gjörvöll Evrópa frá Íshafi suður til Miðjarðarhafs, Asía austur til Japans og Norður-Ameríka. Þó æðaskjanni sé mjög algeng tegund í nágrannalöndunum þá berst hann mun síður en aðrar tegundir kálfiðrilda til Íslands, enda tengist hann ekki matjurtum eins og þær hinar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert