Sólin hefur kvatt að sinni

Skuggi fellur á íbúa Fáskrúðsfjarðar fram til 28. janúar.
Skuggi fellur á íbúa Fáskrúðsfjarðar fram til 28. janúar. Ljósmynd/Albert Kemp

Um fimm dagar eru síðan síðast sást til sólar á Fáskrúðsfirði og taka því við sólarlausir dagar fram til 17. janúar þegar fyrstu íbúar í bænum geta séð sólina koma fjallgarði í suðri sem byrgir sólarsýnina um sinn.  Þorpsbúar geta svo allir notið sólarinnar að nýju 28. janúar. 

Við það tilefni hefur verið hefð fyrir því frá því snemma á níunda áratugnum að fagna komu sólarinnar með sólarkaffi sem íþróttafélagið Leiknir á Fáskrúðsfirði hefur haft veg og vanda af. Steinn Jónasson, formaður félagsins, segir að þorpsbúar hlakki ávallt til þess þegar endurkomu sólarinnar er fagnað í félagsheimilinu Skrúði. Það rúmar um 200 manns í sæti og segir Steinn alla jafna „troðfullt“ í húsinu þegar áfanganum er fagnað. Samhliða hefur farið fram uppskeruhátíð hjá félaginu.   

Beðið þar til allir sjá sólina 

„Sólin kvaddi þorpið fyrir fimm dögum síðan, við sjáum hana aftur alla jafna í kringum 17. janúar en allir í þorpinu sjá hana 28. janúar og við höldum ekki sólarkaffi fyrr en þá, þegar allir geta séð sólina,“ segir Steinn.  

Leiknir á Fáskrúðsfirði hefur haft veg og vanda af sólarkaffi …
Leiknir á Fáskrúðsfirði hefur haft veg og vanda af sólarkaffi um áratugabil. Hér má sjá Stein Jónasson formann Leiknis í pontu.

Hann segir að veislan sé upp á gamla mátann þar sem borðaðar eru pönnukökur og kleinur í kaffisamsæti. „Við veitum við þetta tilefni verðlaun og veljum okkur íþróttamann ársins,“ segir Steinn. 

Fyrst og fremst fyrir fjölskyldur 

Hann hlær við spurningu blaðamanns um hvort léttar veitingar séu að kvöldi þess dags sem sólarkaffi er haldið. „Þetta er fyrst og fremst hugsað fyrir fjölskyldur. Að þær geti komið saman til að eiga góðan dag. Eins og gefur að skilja stunda flestir íþróttir innan félagsins og veitt eru alls kyns verðlaun í öllum deildum,“ segir Steinn.  

Fyrsta sólarkaffið var haldið snemma á níunda áratugnum.
Fyrsta sólarkaffið var haldið snemma á níunda áratugnum.

Hann segir að fleiri en Fáskrúðsfirðingar sæki gleðskapinn. „Í gegnum árin hefur það þróast þannig að hjá okkur hafa keppt krakkar frá Stöðvarfirði, Breiðdal og Reyðarfirði og víðar. Þetta er því hátíð sem er öllum opin,“ segir Steinn. 

Hann segir alla jafna séu fleiri en 200 sem komi í sólarkaffið og þeir sem séu búnir að fá sér að borða standi upp fyrir hinum. Þannig megi koma mun fleiri að.   

Uppfært: Í upphaflegu útgáfu fréttarinnar var sagt að Hoffell skyggði á byggð í Fáskrúðsfirði, en það mun vera fjallgarður sunnanvert við bæinn sem gerir það að verkum að skuggi fellur á byggðina.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert