Emil þarf að fara í flókið umspil

Emil Hallfreðsson hefur leikið á Ítalíu frá árinu 2007, að …
Emil Hallfreðsson hefur leikið á Ítalíu frá árinu 2007, að undanskildu einu tímabili. mbl.is/Jóhannesson

Emil Hallfreðsson og samherjar í Padova misstu í dag naumlega af því að tryggja sér sæti í ítölsku B-deildinni í knattspyrnu og þurfa nú að fara í flókið umspil í vor.

Padova vann Sambenedettese 1:0 í lokaumferðinni í dag. Það dugði ekki því keppinautarnir í Perugia unnu sinn leik gegn Feralpi Salo, 2:0. Perugia og Padova enduðu jöfn og efst í B-riðli C-deildarinnar með 79 stig en Perugia vann riðilinn á innbyrðis úrslitum og hefur þar með tryggt sér sæti í B-deildinni ásamt Como og Ternana sem unnu hina tvo riðlana.

Emil og félagar í Padova fara hins vegar í umspil ásamt tveimur liðum úr B-deildinni og einum 27 liðum úr C-deildinni þar sem tvö lið munu að lokum vinna sér B-deildarsæti. En þar sem Padova varð í öðru sæti í sínum riðli situr liðið hjá í byrjun umspilsins.

Emil, sem verður 37 ára í næsta mánuði, lék síðasta hálftímann í leiknum í dag en hann spilaði alls 28 af 38 leikjum Padova í deildinni í vetur og skoraði þrjú mörk. Hann er að ljúka sínu þrettánda tímabili í ítalska fótboltanum og þar af eru átta tímabil í A-deildinni þar sem Emil er langleikjahæstur íslenskra knattspyrnumanna með 117 leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert