Bóluefni í boði fyrir alla 19. apríl

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP

Talið er að Joe Biden Bandaríkjaforseti muni í dag tilkynna að bóluefni verði í boði fyrir alla fullorðna Bandaríkjamenn, óháð ríki, fyrir 19. apríl næstkomandi. Það er töluvert fyrr en áætlanir höfðu gert ráð fyrir.

CNN greindi frá því að Biden væri að færa tímamörkin, á því að allir fullorðnir hefðu möguleikann á bólusetningu, frá 1. maí til 19. apríl eftir gott gengi bólusetninga í öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna.

Hvíta húsið vildi upphaflega ekki tjá sig um efni fréttar CNN en hefur nú staðfest hana.

Upphaflega var markmið ríkisstjórnar Biden að bólusetja eina milljón manna á hverjum degi og gekk það svo vel að fljótlega var orðin þörf á því að setja háleitari markmið. Talið er að um 3,1 milljón manna sé bólusett á hverjum degi í Bandaríkjunum. 

Þrátt fyrir það hefur fjöldi nýrra smita aukist undanfarið, sérstaklega meðal yngra fólks, en talið að kenna megi kæruleysi um vegna þess hve vel hefur gengið að bólusetja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert