Innlent

Framleiðni eldgossins tvöfaldast með nýju sprungunni

Kjartan Kjartansson skrifar
Ný sprunga myndaðist við gosstöðvarnar í Geldingadölum og rann hraun í Meradali.
Ný sprunga myndaðist við gosstöðvarnar í Geldingadölum og rann hraun í Meradali. Vísir/Vilhelm

Nýja gossprungan sem opnaðist í Meradölum í gær er í raun viðbót við gosið í Geldingadölum sem hefur þannig tvöfaldað framleiðslu sína. Þorvaldur Þórðarson, jarðfræðingur, segir vel hugsanlegt að önnur gossprunga gæti opnast.

Yfirþrýstingur kviku sem varð til þess að ný gossprunga opnaðist í Meradölum á Reykjanesi, rétt hjá gosstöðvunum í Geldingadölum, í gær er enn til staðar. Þorvaldur sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld að önnur sprunga gæti því hugsanlega myndast.

„Ég myndi nú halda að það væri kannski líklegast miðað við stöðuna í dag eins og þessar sprungur sem er búið að kortleggja að það myndi gerast á milli þessa tveggja gosstaða sem eru í gangi núna en það er líka hugsanlegt að það gerist fyrir norðan nýja staðinn,“ sagði Þorvaldur sem taldi ólíklegt að sprunga myndaðist sunnan núverandi gosstaða.

Spurður að því hvort að hraun gæti náð að Faxaflóa ef fleiri gossprungur opnast norðan við Meradali og Geldingadali sagðist Þorvaldur ekki telja það að svo stöddu. Framleiðsla gossins sé það lítil og ný sprunga næði líklega ekki svo langt norður til að senda hraun niður að flóanum.

„En ef að gosið gefur í og sprungan lengist verulega til norðurs ef það alveg möguleiki,“ sagði Þorvaldur.

Hann sér fyrir sér langt gos. Það hafi byrjað með jöfnum dampi og haldið honum.

„Venjulega byrja gos af miklum yfirþrýstingi og síðan fellur þrýstingurinn og þá fjarar gosið út smátt og smátt. En þetta kemur bara upp með jafnaðargeði eins og einhver segir og heldur þessu bara áfram,“ sagði Þorvaldur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×