Alexander snýr aftur og bræður semja

Oddur Rúnar Kristjánsson er kominn aftur í KR.
Oddur Rúnar Kristjánsson er kominn aftur í KR. Ljósmynd/KR

Alexander Óðinn Knudsen og bræðurnir Hjörtur og Oddur Rúnar Kristjánssynir hafa samið við körfuknattleiksdeild KR um að leika með liðinu á komandi tímabili.

Allir hafa þeir áður leikið fyrir KR og munu freista þess að koma liðinu aftur upp í deild þeirra bestu eftir að liðið féll úr úrvalsdeildinni á síðasta tímabili í fyrsta sinn í sögu karlaliðsins.

Alexander Óðinn er fæddur árið 2003, uppalinn KR-ingur og hefur leikið allan sinn feril með KR fyrir utan síðustu leiktíð þar sem hann lék með Haukum í úrvalsdeild. Alexander hefur leikið með yngri landsliðum Íslands og var núna síðast valinn í æfingahóp U20-ára landsliðsins fyrir verkefni sumarsins. Alexander hóf meistaraflokksferil sinn með KR tímabilið 2020/2021, þá 17 ára gamall.

Hjörtur er einnig fæddur árið 2003. Hann hefur leikið með yngri flokkum KR sem og meistaraflokki. Á síðustu leiktíð fór Hjörtur á venslasamningi til Ármanns. Hjörtur hefur verið í yngri landsliðum undanfarin ár og var valinn í æfingahóp U20 ára landsliðsins fyrir komandi verkefni í sumar.

Oddur Rúnar, sem fæddur er árið 1995, kom fyrst til KR árið 2008 frá uppeldisfélagi sínu, Breiðabliki. Oddur lék með yngri flokkum KR og spilaði sinn fyrsta meistaraflokks leik fyrir liðið árið 2012.

Ásamt því að hafa leikið fyrir KR hefur Oddur spilað með Stjörnunni, ÍR, Grindavík, Val og Njarðvík. Oddur lék með Njarðvík í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og skoraði að meðaltali tæplega átta stig í leik.

Oddur og Hjörtur eru bræður Björns Kristjánssonar, sem lagði skóna á hilluna á síðasta tímabili vegna meiðsla, eftir farsælan feril með KR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert