Viðskipti erlent

App­le biðst af­sökunar á aug­lýsingu fyrir nýjan iPad

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sumir segja auglýsinguna endurspegja framtíðarsýn þar sem tæknin hefur komið í stað mannshandarinnar.
Sumir segja auglýsinguna endurspegja framtíðarsýn þar sem tæknin hefur komið í stað mannshandarinnar. Apple

Apple hefur beðist afsökunar vegna auglýsingar sem hefur vakið mikla reiði. Um er að ræða auglýsingu fyrir nýjan iPad en hún sýnir pressu kremja ýmsa hluti á borð við bækur, hljóðfæri og aðrar táknmyndir listarinnar.

Skilja má auglýsinguna sem svo að iPadinn hafi gert þessa hluti úrelta en hann birtist eins og bjargvætturinn þegar eyðileggingin er yfirstaðinn, undir orðunum „Öflugasti iPadinn er einnig sá þynnsti“.

Það var Tim Cook, framkvæmdastjóri Apple, sem deildi auglýsingunni á Twitter þar sem hann skoraði á fólk að ímynda sér hvað væri hægt að skapa með nýja töfratækinu.

Það var hins vegar fjarri hugum margra, sem þótti síður en svo sniðugt að gefa í skyn að listhneigð mannanna yrði fullnægt með þessari nýjustu afurð Apple.

Leikarinn Hugh Grant var þeirra á meðal og sagði á Twitter að auglýsingin endurspeglaði tortímingu mennskunnar, í boði Kísildals. Þá sagði kvikmyndagerðakonan Justine Bateman að gervigreind og tæknin almennt miðuðu nú að því að eyðileggja listirnar og samfélagið almennt.

Eins og fyrr segir brást Apple við gagnrýninni með því að biðjast afsökunar. Talsmaður þess sagði sköpunargáfuna innbyggða í erfðaefni fyrirtækisins og vörum þess væri ætlað að valdefla skapandi einstaklinga út um allan heim.

Auglýsingin er enn á samfélagsmiðlum en fregnir herma að hún muni ekki birtast í sjónvarpi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×