fbpx
Þriðjudagur 07.maí 2024
Fréttir

Jarðskjálfti á Reykjanesskaga hefur brotið rúður í Reykjavík – „Sprungur komu í veggi og reykháfar hrundu“

Máni Snær Þorláksson
Mánudaginn 1. mars 2021 10:40

mynd/samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jarðskjálftahrinan á Reykjanesskaganum undanfarna daga hefur án efa fengið marga til að hafa áhyggjur. Sterkustu jarðskjálftarnir hafa verið ansi snarpir, stærsti skjálftinn í hrinunni var 5,7 að stærð. Í kjölfar þess skjálfta hafa orðið einhverjar skemmdir á húsum en þó ekki stórvægilegar. Ef það kemur þó skjálfti sem er aðeins stærri gæti það breyst ef marka má upplýsingar um fyrri skjálfta.

Í nýlegri grein sem birtist á Vísindavefnum er fjallað um þann skaða sem jarðskjálftar á Reykjanesskaganum hafa valdið. „Hafa jarðskjálftar á Reykjanesskaga valdið miklum skaða?“ var spurt en jarðfræðingurinn Þórunn Skaftadóttir svaraði spurningunni á vefnum.

„Ekki er vitað um marga skjálfta með upptök á Reykjanesskaga sem valdið hafa skaða. Áhrifamestur var stærsti skjálftinn sem þar hefur mælst, en hann varð í Brennisteinsfjöllum í júlí 1929, af stærðinni 6,2,“ segir Þórunn í svarinu. „Hans gætti nokkuð í Reykjavík, þar sem einhverjar skemmdir urðu á húsum, bæði hlöðnum og steyptum, sprungur komu í veggi og reykháfar hrundu. Einnig brotnuðu rúður. Voru áhrif hans talin öllu meiri þar en Suðurlandsskjálftanna 1896.“

Þórunn segir að fleiri skjálftar af svipaðri stærð hafi orðið á svæðinu en þó hafi skemmdir vegna þeirra ekki verið jafn miklar. „Annar skjálfti varð á sömu slóðum í desember 1968, 6,0 að stærð. Hann fannst vel í Reykjavík en olli óverulegum skemmdum. Árið 1933 varð skjálfti suður af Keili, um 6,0 að stærð og hrundu þá grjóthleðslur á Vigdísarvöllum. Annar álíka stór átti upptök á svipuðum stað árið 1899, en þá féllu útihús á Vigdísarvöllum og í Krýsuvík.“

DV ræddi við Þórunni um jarðskjálftana undanfarna daga og hver áhrifin yrðu ef það kemur jarðskjálfti á borð við þann sem kom árið 1929. „Það gætu brotnað rúður hugsanlega ef upptökin eru nærri viðkomandi stað, sem sagt í næsta nágrenni, þá gæti það alveg gerst,“ segir Þórunn.

Eflaust gera sér ekki allir grein fyrir muninum á jarðskjálfta af stærðinni 5,7 og 6,2. Þrátt fyrir að munurinn virðist vera lítill á blaði er hann ansi mikill. Ástæðan fyrir því er sú að mæling á jarðskjálftum er í veldisvexti, því hærri sem tölurnar eru, því meiri munur er á tugabrotunum. „Það er töluvert mikill munur, það munar meira um það eftir því sem skjálftarnir verða stærri,“ segir Þórunn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Stefán Einar svarar fyrir sig – Segir ómerkilega menn hafa ráðist á eiginkonu hans – „Þá skortir sómakennd til að sjá að sér“

Stefán Einar svarar fyrir sig – Segir ómerkilega menn hafa ráðist á eiginkonu hans – „Þá skortir sómakennd til að sjá að sér“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Elín Hirst óttast um velferð föður síns

Elín Hirst óttast um velferð föður síns