Erlent

Losun í Kína dróst saman í fyrsta skipti eftir efnahagsbatann

Kjartan Kjartansson skrifar
Byggingarverkamenn að störfum í Sjanghæ í Kína.
Byggingarverkamenn að störfum í Sjanghæ í Kína. Vísir/EPA

Koltvísýringslosun í Kína dróst lítillega saman á þriðja ársfjórðungi en það er í fyrsta skipti sem það gerist eftir að efnahagslífið tók við sér eftir kórónuveiruheimsfaraldurinn. Samdrátturinn er rakinn að hluta til minni byggingaframkvæmda og kolaskorts.

Síðast dróst ársfjórðungslosun í Kína saman á milli ára á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs þegar kórónuveiran skaut fyrst upp kollinum. Á fyrri helmingi þessa árs jókst hún um níu prósent samkvæmt greiningu Orku- og loftgæðarannsóknastofnunarinnar (CREA) í Helsinki í Finnlandi.

Framboð á kolum hefur verið afar takmarkað í Kína undanfarið og sögulega hátt verð hefur leitt til rafmagnsleysis í mörgum héruðum á þriðja ársfjórðungi. Það hefur komið niður á bæði iðnaði og almennum borgurum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Framleiðsla á stáli og sement dróst saman um sextán og ellefu prósent, hvor um sig, frá öðrum ársfjórðungi. Kínversk stjórnvöld hægðu á byggingariðnaði í landinu til þess að verjast mögulegu falli fasteignarisans Evergrande.

Markmið kommúnistastjórnarinnar er að losun Kínverja á gróðurhúsalofttegundum nái hámarki í kringum árið 2030 og dragist síðan saman. Lauri Myllyvirta, aðalgreinandi CREA, segir samdráttinn á síðasta ársfjórðungi mögulega benda til þess að losun í Kína hafi þegar náð hámarki sínu, vel á undan áætlun.

Dæli Kínverjar aftur fé í byggingariðnaðinn til þess að koma hjólum efnahagslífsins á hreyfingu gæti losun þó aukist aftur.

Kína er mesti losandi gróðurhúsalofttegunda í heiminum um þessar mundir en sögulega hafa Bandaríkin losað mest magn út í andrúmsloftið.


Tengdar fréttir

Telja ríki heims vanmeta losun um milljarða tonna

Vafasamar bókhaldsreglur, ófullkomin skil einstakra landa og vísvitandi misskráning er sögð ástæða þess að ríki heims vanmeta losun sína á gróðurhúsalofttegundum um milljarða tonna á hverju ári. Samkvæmt varfærnu mati gæti umframlosunin verið meiri en árslosun Bandaríkjanna.

Auka framleiðslu og brennslu kola til muna í Kína

Kolaframleiðsla í Kína hefur verið aukin til muna og stendur til að auka hana enn fremur. Verið er að stækka gamlar námur og grafa nýjar víðsvegar um landið en Kína brennir þegar meira af kolum en öll önnur ríki heimsins samanlagt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×