Eigandi starfsmannaleigu ákærður

Slökkviliðsstjóri höfuðborgasvæðisins skoðaði eldvarnir hússins og þá kom ýmislegt í …
Slökkviliðsstjóri höfuðborgasvæðisins skoðaði eldvarnir hússins og þá kom ýmislegt í ljós. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eigandi starfsmannaleigunnar 2findjob ehf. hefur verið ákærður fyrir hættubrot og brot gegn lögum um brunavarnir með því að hafa í lok árs og byrjun árs 2017 látið útbúa búseturými fyrir starfsmenn starfsmannaleigunnar í iðnaðarhúsnæði án tilskilinna leyfa og án þess að gera nauðsynlegar ráðstafanir varðandi brunavarnir. 

Húsnæðið var leigt út af félagi mannsins, Smíðalandi ehf. 

Bráð íkveikjuhætta í húsinu

Í húsinu var bráð íkveikjuhætta, að því er fram kemur í ákærunni. Þegar slökkviliðsstjórinn í Reykjavík skoðaði eldvarnir hússins að beiðni lögreglu 23. febrúar 2018 kom í ljós að engin brúnahólfun var í húsnæðinu, flóttaleiðir voru ófullnægjandi, innveggir og gistirými voru úr auðbrennanlegu efni, ástand raflagna var óásættanlegt og skapaði eldhættu auk þess sem starfsemi fór fram í húsnæðinu sem fól í sér íkveikjuhættu. 

Í ákærunni segir að með þessu hafi maðurinn í ábátaskyni og „á ófyrirleitin hátt“ stefnt heilsu og lífi um 24 starfsmanna 2findjob ehf. í „augljósan háska“. 

Í ákærunni er þess krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. 

Rúv greindi fyrst frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert