Hrun í sölu á pallaolíu og sumarhúsgögnin bíða

Ómar Gunnarsson, eigandi Sérefna segir skítviðrið hentugt til að þrífa …
Ómar Gunnarsson, eigandi Sérefna segir skítviðrið hentugt til að þrífa pallinn. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Löng kulda- og rigningartíð á Suður- og Vesturlandi hefur sett strik í vorverk fólks. „Hún hefur í raun frestað sumrinu vegna þess að í maímánuði byrja flestir á sínum fyrstu útiverkum. Það sem blasir alltaf við beint fyrir framan þig er pallurinn. Það þarf að þrífa hann og olíubera,“ segir Ómar Gunnarsson, eigandi Sérefna. Sala á pallaolíu og pallahreinsi hefur dregist saman um allt að 60% ef miðað er við maímánuð 2022.

Sala á sumarhúsgögnum er einnig undir væntingum þetta árið og nokkuð undir sölunni fyrir ári síðan, að sögn Guðrúnar Camillu Aradóttur, fjölmiðlafulltrúa IKEA. Veðrið hafi greinilega áhrif. „Það gerir það skiljanlega. Þetta fer mun hægar af stað en til að mynda í fyrra þegar maímánuður var mjög góður.“

Vorverkin stundum hafist um páska

Ómar segir að þegar betur hafi árað hafi fólk jafnvel getað hafið vorverkin um páskahelgina. Því var ekki fyrir að fara nú og veðráttan ólík því sem var fyrir ári en þá var maímánuður hægviðrasamur og tiltölulega hlýr á sunnanverðu landinu. „Það sem af er vori eða hausti innan gæsalappa þá hefur sáralítið hreyfst og gerst í þeim efnum,“ segir Ómar.

„Við höfum hins vegar verið að reyna að útskýra fyrir fólki að byrja á því að þrífa pallinn,“ bætir hann við.

Að sögn Ómars þarf stundum að skafa upp gráma og drullu þannig að pallurinn njóti sín í íslenska sumrinu. Það kalli á vatnsaustur sem sé nóg af þessa dagana. „Hví í ósköpunum er fólk ekki að gera það á meðan skítviðrið er?“

Virðist alltaf þurfa sól svo fólk fari út

Það er sem sagt engin afsökun að sitja í sófanum yfir helgina vegna þess að veðrið er ekki nógu gott til að láta til sín taka í garðinum en rigningarkort Veðurstofu Íslands dag eftir dag hafa ekki blásið fólki byr í brjóst. „Það er eins og það þurfi alltaf sólina til að fólk fari út og byrji á einhverju, sem er skiljanlegt. Það er þunglynt heima hjá sér út af sólarleysi og stýrivaxtahækkunum.“

Ómar segir að konur skilji betur en karlar mikilvægi þess að þrífa flötinn sem á að bera olíuna á en þeir þrífi þó alltaf bílana sína áður en þeir bóni þá. „Núna er lag að fara að sápa og hreinsa því sumarið kemur í næstu viku,“ segir Ómar vongóður um betri tíð.

Samkvæmt spám glittir jafnvel í sumarkomu í næstu viku og Guðrún vonast til þess að sólin, sem lét sjá sig í höfuðborginni í dag, hvetji fólk til þess að huga að garðinum. Maí hafi í raun verið eini sumarmánuðurinn á suðvesturhorninu í fyrra.

„Þegar maður er hættur að kippa sér upp við að það sé haglél í maí þá er ástand en við erum alls ekki búin að missa móðinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert