Hætti að lesa stöðugt í sálarlíf forystu Eflingar

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég skil ekki hvers vegna Halldór Benjamín getur ekki fundið sér eitthvað þarfara að gera. Hann gæti til dæmis reynt að kynna sér mjög sanngjarnar og jarðbundnar kröfur Eflingar í stað þess að vera stöðugt að lesa í sálarlíf forystu Eflingar með sí misheppnaðri hætti.“

Þetta segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í samtali við mbl.is en Halldór Benjamín Þorbergsson, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka at­vinnu­lífs­ins, lét hafa eftir sér í gær að versti ótti forystu Eflingar væri að verkföll verði dæmd ólögmæt og kæmu þar af leiðandi ekki til framkvæmdar fyrr en eftir atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu ríkissáttasemjara.

Eins langsótt og hægt er að hugsa sér

Hún segir málatilbúnað að baki stefnu Samtaka atvinnulífsins vera algjörlega fráleitan.

„Samtök atvinnulífsins halda því fram að ólöglega miðlunartillaga ríkissáttasemjara hafi um leið og hún er lögð fram ígildi kjarasamnings og að með því einu að leggja hana fram sé búið að svipta okkur réttinum til að láta greiða atkvæði um vinnustöðvanir eða að fara í vinnustöðvanir. Þetta er náttúrulega eins langsótt og hægt er að hugsa sér.“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Halldór Benjamín Þorbergsson, formaður …
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Halldór Benjamín Þorbergsson, formaður SA í baksýn. mbl.is/Hákon

Halldór Benjamín lét jafnframt hafa eftir sér að stétt­ar­fé­lag á harðahlaup­um und­an eig­in fé­lags­mönn­um sé stétt­ar­fé­lag í vanda statt. Sólveig Anna gefur lítið fyrir það og segir sífellt ofsakenndari og ýktari lýsingar Halldórs Benjamíns á forystu Eflingar og samskiptum við félagsfólk hlægilegar.

Það útskýrir tryllinginn

„Það getur enginn haldið því fram sem vill láta telja sig með fullu viti að ég sé eða hafi nokkru sinni verið á harðahlaupum undan félagsfólki Eflingar. Það hlýtur öllum sem vilja teljast með fullu viti að vera það ljóst að frá því að ég tók við sem formaður fyrir félagið hefur allt kapp verið lagt á það að opna félagið fyrir félagsfólki.

Við ástundum opin heiðarleg lýðræðisleg vinnubrögð og það er ástæðan fyrir því geigvænlega uppnámi sem ríkir í herbúðum íslenskrar valdastéttar. Þau trúðu því aldrei að sá dagur myndi renna upp að hér kæmi aftur fram á sjónarsviðið róttæk forysta í verkalýðsfélagi.

Þau héldu að þau væru búin að kaupa sér endanlegan svikafrið á vinnumarkaði til þess að þau gætu arðrænt og kúgað fólk eins og þeim lystir. Þess vegna láta þau svona. Það útskýrir tryllinginn.“

Sólveig segir að lýðræðisleg vinnubrögð Eflingar og það að félagsfólk sjálft standi í framvarðasveit og leiði baráttuna og ákveði þannig sjálft hvað það ætlar að sætta sig við útskýri þá aumkunarverðu sjón sem blasi við okkur nú á hverjum einasta degi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert