Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, keypti hlutabréf í fasteignafélaginu fyrir tæplega 4 milljónir króna í morgun. Alls keypti hann 167 þúsund hluti í gegnum félagið sitt B38 ehf. á genginu 23,9 krónur á hlut. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Helgi átti 1.656.787 hluti í Regin í árslok 2022, samkvæmt ársreikningi félagsins. Í kjölfar viðskiptanna í morgun á hann því um 1,8 milljónir hluta í fasteignafélaginu sem er um 43,8 milljónir króna að markaðsvirði.

Helgi hefur verið forstjóri Regins frá stofnun félagsins árið 2009. Um miðjan síðasta mánuð var tilkynnt um að hann hefði óskað eftir því að láta af störfum á næstu mánuðum. Helgi mun sinna starfinu þar til stjórn Regins hefur ráðið eftirmann hans.