Smitið hefur áhrif á um 10 starfsmenn DV

DV, Fréttablaðið og Hringbraut eru til húsa við Hafnartorg í …
DV, Fréttablaðið og Hringbraut eru til húsa við Hafnartorg í miðborg Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þær sóttvarnaaðgerðir sem ráðist var í vegna smits sem kom upp á ritstjórn DV hafa áhrif á um 10 starfsmenn blaðsins sem sendir hafa verið heim í sóttkví. Ekki er þörf á að fleiri starfsmenn útgáfufélagsins Torgs, meðal annars ritstjórn Fréttablaðsins og Hringbrautar, fari í sóttkví að svo stöddu. Þetta staðfestir Jóhanna Helga Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Torgs, í samtali við mbl.is.

Jóhanna segir að um einn starfsmann í hlutastarfi hafi verið að ræða sem greindist með smit. Nú sé unnið með smitrakningarteymi almannavarna og hafi verið gripið til þeirra ráðstafana sem mælt var með.  „Ég á ekki von á að þetta hafi áhrif á fleiri hópa hér innanhúss,“ segir Jóhanna spurð um áhrif á fleiri starfsmenn Torgs, en skrifstofur Fréttablaðsins, DV og Hringbrautar eru allar í opnu rými á sömu hæð við Hafnartorg.

Jóhanna tekur fram að ekki sé von á að aðgerðirnar muni raska starfsemi DV að neinu leyti. Starfsfólkið geti unnið í fjarvinnu og miðlarnir séu þess eðlis að geta haldið áfram starfsemi þótt unnið sé að heiman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert