Segir að morðið hafi verið hrein og klár aftaka

Angj­el­in Sterkaj hefur játað að hafa orðið Armando Beqirai að …
Angj­el­in Sterkaj hefur játað að hafa orðið Armando Beqirai að bana 13. febrúar síðastliðinn. Ákæruvaldið fer fram á að hann verði dæmdur í 16-20 ára fangelsi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Morðið í Rauðagerði var hrein og klár aftaka að mati Kolbrúnar Benediktsdóttur varahéraðssaksóknara. Hún fer fram á 16-20 ára fangelsisdóm í málinu.

Hún sagði í málflutningi sínum við aðalmeðferð Rauðagerðismálsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag að augljóst væri að allir fjórir ákærðu hefðu haft samráð um að Angjelin Sterkaj, einn ákærðu, myndi ráða Armando Beqirai bana í Rauðagerði 13. febrúar síðastliðinn. 

Í fyrsta lagi segir Kolbrún að Angjelin hafi játað morðið þegar lögregla hafði kynnt honum alls 13 sönnunargögn sem bentu til sektar hans. Segir Kolbrún að aðstæðurnar sem Angjelin játaði við skipti mjög miklu máli. 

Hrein og klár aftaka

Angjelin Sterkaj ber fyrir sig að morðið á Armando hafi verið eins konar nauðvörn þar sem hann hafi verið að gera sig líklegan til þess að ráðast að sér. Kolbrún segir þetta ekki koma heim og saman þar sem Angjelin hafi skotið Armando níu sinnum, tvisvar í bakið, og verið á bak og burt 57 sekúndum seinna. 

Ekkert bendi til þess að til einhverra stympinga eða háreystis hafi komið, eins og Angjelin bar vitni um fyrir dómi á mánudag í síðustu viku. Mágur Armandos og meðleigjandi hans, sem bjuggu á neðri hæðinni í Rauðagerði 28, segjast aldrei hafa orðið varir við neitt háreysti. Aðeins urðu þeir varir við hvell, eins og verið væri að skella hurð, og í sömu andrá sáu þeir Armando liggja meðvitundarlausan fyrir utan bílskúr hússins. 

Kolbrún segir einnig að játning Angjelin segi lítið þar sem hann játaði morðið þegar lögregla kynnir honum að þeir hafi 13 sönnunargögn, sem bendi til sektar hans. Þar að auki segir Kolbrún að ásetningur Angjelins hafi verið ansi skýr og því ekki tilefni til þess að dæma hann til lægri refsingar en 16 ára fangelsisvistar. Segir Kolbrún raunar að ákæruvaldið fari fram á 16-20 ára fangelsisdóm.

Segir að Claudia hafi vitað

Kolbrún segir svo um ákærðu Claudiu Sofiu Coelho Carvalho að allt bendi til þess að hún hafi vitað til þess að Angjelin hafi ætlað sér að myrða Armando. Vísar Kolbrún meðal annars til þess þegar Claudia á að hafa skilað bílaleigubíl, notaður varð við morðið, tók hún teygjuna úr hári sínu og henti jakka sínum út í runna eins og til þess að breyta útliti sínu. Í kjölfar þessa var Claudia svo handtekin.

Kolbrún segir að Claudia hafi ekki sagt lögreglu alla sólarsöguna þegar í stað. Spurði hún dóminn hvers vegna hún hafi ekki gert það ef hún væri alsaklaus. Sú staðreynd að hún hafi ekki gert það segir Kolbrún að bendi til sektar hennar.

Vitnisburður Shpetim hafi verið í belg og biðu

Um ákærða Shpetim Qerimi segir Kolbrún að hann hafi vitað af morðinu, meðal annars þegar hann keyrði Angjelin á morðvettvang. Þegar Angjelin kom aftur í bílinn, hafandi myrt Armando, lagði hann á gólf bílsins byssu með hljóðdeyfi sem er um 40cm löng. Það segir Kolbrún að geti ekki hafa farið framhjá neinum sem sat einnig inn í bílnum. 

Þar að auki heldur ákæruvaldið því fram að vitnisburður Shpetim í skýrslutökum lögreglu hafi verið svo til í belg og biðu og ekki í samræmi við málsgögn. Vitnisburður hans hafi svo enn verið nokkuð úr samhengi við málsgögn fyrir dómi. 

Segir að Murat hafi lagað vitnisburð sinn að því sem lögregla sagði honum

Kolbrún segir um ákærða Murat Selivrada hafi sannarlega vitað af því að Angjelin ætlaði sér að myrða Armando, enda hafi hann tekið þátt í skipulagningu þess. Það átti hann að hafa gert með því að benda Claudiu á bíla Armandos, sem síðan benti Angjelin á þegar téðir bílar fóru að hreyfast. Þannig hafi Angjelin vitað hvenær væri von á Armando heim úr vinnu. 

Auk þess segir Kolbrún að Murat hafi sí og æ lagað framburð sinn í skýrslutökum lögreglu að því sem lögregla tjáði honum þá og þegar. Fyrst um sinn hafi hann haldið því fram að hann þekkti ekki Angjelin en svo eftir nokkurn tíma sagðist hann vissulega þekkja hann. Sömuleiðis hafi hann fyrst sagst ekki þekkja Claudiu en síðan seinna mundi hann vissulega eftir því að hafa séð hana og talað við hana. 

Þannig segir Kolbrún að slitróttur framburður hans við skýrslutöku lögreglu bendi til þess að hann hafi haft eitthvað að fela. 

Refsa megi fyrir samverknað

Kolbrún vitnaði svo í danskan lagatexta um samverknað, sem er mjög svipaður íslenskum ákvæðum þar að lútandi, og segir hún að þar liggi skýrt fyrir að samverknaður geti verið hafður um verknað þrátt fyrir að aðeins einn fremji eiginlegan verknað. 

Segir hún að verði að liggja skýrt fyrir að verknaðurinn, sem í þessu tilfeli er morðið á Armando, standi og falli með þætti hvers og eins ákærða. Þannig sé þáttur hvers ákærða í málinu mikilvægur til þess að verknaðurinn geti farið fram, þótt þáttur eins sé kannski mikilvægari en þáttur annars.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari fór yfir málið í málflutningsræðu sinni í …
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari fór yfir málið í málflutningsræðu sinni í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert